150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

um fundarstjórn.

[13:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hérna var orðið „alvanalegt“ notað nokkrum sinnum af fleiri en einum hv. þingmanni. Það er alvanalegt að það sé mikið að gera og þurfi að halda aukafundi í nefndum og ætti ekki að koma neinum á óvart að meiri hlutinn taki út mál. Það er rétt, virðulegi forseti. Það er alvanalegt, því miður, að á Alþingi sé svona vinnubrögðum beitt. Það var svona þegar ég kom fyrst á þing 2013 og er þannig enn þá. Því miður er það alvanalegt, virðulegi forseti. Það er það sem er að því. Það er engin afsökun. Hafa hv. þingmenn hnotið um það nýlega að Alþingi njóti svo mikillar virðingar fyrir það sem það gerir alvanalega? (Gripið fram í: Nákvæmlega.) [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Er ekki kominn tími til að breyta aðeins til og sýna aðeins meiri lipurð, þá einföldu og litlu lipurð sem þarf til að bæta það hvernig mál eru afgreidd úr nefndum eða almennt? Þetta er ekki stór krafa, virðulegi forseti. Það er rétt, þetta er alvanalegt en það er rangt að (Forseti hringir.) það eigi að halda því þannig áfram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)