150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

fsp. 1.

[13:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina enda þekki ég ágætlega til norræns samstarfs þar sem ég gegndi embætti norræns samstarfsráðherra hér á árum áður. Ég hef kynnt mér það hvernig val fer fram á ritstjóra þess tímarits sem hv. þingmaður vísar hér til, Nordic Economic Policy Review. Um er að ræða rit sem er gefið út af norrænu ráðherranefndinni, er fjármagnað af fjármálaráðuneytum Norðurlandanna og það er sú ráðherranefnd sem fer með útgáfu þessa rits. Það er svo, af því að hv. þingmaður nefnir hér að þessu riti sé ekki ætlað að styðja við stefnumótun ráðuneytanna, að það kemur eigi að síður fram í fundargerð fundar stýrihóps sem fer með umsjón þessara mála að sérstaklega var rætt um að mikilvægt væri að þetta rit styrkti við stefnumótun og greinarnar sem í því birtast, svo að vitnað sé til þess á ensku, með leyfi forseta, væru „policy oriented“.

Það er svo með þessa ráðningu eins og margar fleiri sem heyra undir norrænu ráðherranefndina að hún fer þannig fram að löndin koma sér saman um einstaklinga í þessi embætti og þau eru ekki endilega auglýst. Það á t.d. við um þetta tilfelli þar sem þessi staða er ekki auglýst. Þegar kom að vali á núverandi ritstjóra, á þessum fundi sem ég vitna til, var óskað eftir tillögum frá fjármálaráðuneytum Norðurlandanna og samkvæmt mínum upplýsingum vildi fjármálaráðuneyti Íslands sérstaklega horfa til þess að kona yrði valin í þetta embætti. Það kemur fram í fundargerð að stýrihópurinn hefði eingöngu rætt karla og lagt var til að einhver myndi gera atlögu að því að hugsa upp kvenkynskandídata. Mér skilst að slík tillaga hafi farið frá íslenska fjármálaráðuneytinu inn í þennan stýrihóp. (Forseti hringir.) En stóra málið í þessu er að ráðningarferlið sem um ræðir snýst um að löndin komi sér saman. (Forseti hringir.) Þar geta allir fjármálaráðherrar allra Norðurlandanna haft skoðun á því hver er á endanum skipaður.