150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það kemur mér sífellt á óvart hvað ég er oft sammála hv. þingmanni þegar við ræðum ekki ákveðin málefni. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Ekki þjóðkirkjuna?) Ekki, já.

Hv. þingmaður talaði aðeins um mikilvægi landbúnaðariðnaðarins og hlutverk hans fyrir þjóðarbúið og náttúruvernd og því um líkt. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það með hv. þingmanni. Við erum kannski örlítið ósammála um hlutverk alþjóðasamninga og alþjóðastofnana þegar kemur að því að bæta hag neytenda með beinum hætti og neytendur eru, segja sumir, bara samheiti fyrir þjóðina eða fólk. Þannig er nefnilega mál með vexti að það getur verið flókið úrlausnarefni að takast á við vandamál eins og faraldurinn sem nú geisar með því einu að styrkja fyrirtæki og vera sífellt að hugsa um þau. Að þeim ólöstuðum birtist vandinn náttúrlega fyrst og fremst í stórauknu atvinnuleysi og þá finnst mér eðlilegt að spyrja: Hvernig styðjum við neytendur, hvernig styðjum við heimilin? Hv. þingmaður nefndi það reyndar aðeins í ræðu sinni, hvort það mætti ekki spyrja líka hvort stuðningur við heimilin væri eðlilegur. Þá er ég að velta fyrir mér afstöðu hv. þingmanns og kannski Miðflokksins almennt gagnvart þeim málum sem við erum að ræða hér í dag og bara almennt þessa dagana. Hér er farið í annars ágætt mál um að auka skil á ársreikningi hjá fyrirtækjum, sjálfsagt flott mál og í raun og veru ekki mikið við það að athuga. En mér hefur fundist svolítið óljóst hvernig við getum hagað jafnvæginu milli þess að styðja annars vegar við neytendur (Forseti hringir.) og hins vegar fyrirtæki þegar við erum kannski ósammála um það á hvaða grundvelli fyrirtækin eigi að starfa með tilliti t.d. til EES-samstarfsins (Forseti hringir.) eða hlutverks landbúnaðarins sem annars vegar vinnuveitanda og hins vegar sem matvælaframleiðanda. (Forseti hringir.)