150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hugsanlega hafi hv. þingmaður snert þarna á atriði sem ég hef velt mikið fyrir mér upp á síðkastið, sér í lagi vegna þeirra aðgerða sem hefur verið ákveðið að fara í til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins. Það er samband fyrirtækja og einstaklinga. Hv. þingmaður nefnir fjölskyldufyrirtæki eða agnarsmá fyrirtæki sem samanstanda t.d. af einum einstaklingi og upp í fjölskyldu, eitthvað undir tug eða kannski þar um. Það þykir mér áhugaverður vinkill. Við erum að ræða, eins og í þessu máli, hvernig við ætlum að haga rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækja sem við þó viðurkennum og í raun og veru lítum jákvæðum augum, eða alla vega ég og mér heyrist einnig hv. þingmaður, að séu fjölskyldufyrirtæki, séu í raun og veru einstaklingar að búa til umhverfi fyrir sína eigin vinnu og það er rómantísk hugmynd. Ég kann mjög að meta þá hugmynd að hver sé sinn eigin yfirmaður og hafi sjálfstæði að því leyti. En þá velti ég fyrir mér hvort áherslan ætti kannski, þegar kemur að þessum litlu fyrirtækjum, fjölskyldufyrirtækjum eða einmenningsfyrirtækjum, að vera lögð á að gera örsmáum fyrirtækjum auðveldara að starfa og gera þá skýran greinarmun á því til hvers er ætlast af þeim í samanburði við ógnarstór fyrirtæki sem við myndum í raun og veru aldrei líkja við fjölskyldur og hvað þá einstaklinga. Þarna finnst mér svolítið áhugaverður eðlismunur vera á starfsemi einstaklings í sínu daglega lífi annars vegar og hins vegar því hvernig sami einstaklingur vinnur fyrir sér eða hefur ofan í sig og á, nefnilega með því að búa til fyrirtæki í kringum rekstur sinn. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður deili þeirri sýn með mér að þegar kemur að agnarsmáum fyrirtækjum, eða fjölskyldufyrirtækjum eins og hv. þingmaður segir, ættum við í raun og veru að leita leiða til að gera þann (Forseti hringir.) starfsvettvang og það umhverfi auðveldara, til þess að fólk öðlist meira sjálfstæði, og þá kannski losna við spurninguna hvort við eigum að vera (Forseti hringir.) að styrkja (Forseti hringir.) neytendur frekar en að nota fyrirtækjaformið. Ég velti (Forseti hringir.) þessu upp og hef áhuga á áliti hv. þingmanns.