150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil bara ítreka að þetta eru tvö mál sem koma frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, annað frá ferðamálaráðherra. Það átti að keyra það í gegn. Það átti ekki einu sinni að fara í umsagnarferli, sem er nánast alltaf gert á Alþingi. Mál fá alla vega tvær vikur, að lágmarki eina. Nei, það átti ekki að fara í umsagnarferli og það átti að keyra það í gegn. Það var bara stoppað vegna þess að stjórnskipunarsérfræðingar komu fyrir nefndina að kröfu okkar í minni hlutanum og bentu á það að þó að ráðherra og ráðuneytið, sem skrifuðu frumvarpið og fluttu það, segðu að það stæðist stjórnarskrá þá stóðst það ekki stjórnarskrá. Það hefði svipt fólk eignarréttinum og ef svipta á fólk honum án þess að brjóta 72. gr. stjórnarskrárinnar þá verður að reyna allar aðrar leiðir fyrst. Það var ekki gert. Þetta er það sem við köllum eftir.

Ég vil líka nefna annað. Það virðist eiga með breytingartillögu að taka út þetta stjórnarskrárbrotlega atriði sem er möguleiki þarna og setja inn algjörlega nýtt ákvæði sem er nýtt mál. Þeir sem komu fyrir (Forseti hringir.) nefndina segja að þetta sé nýtt mál. Það þarf að sjálfsögðu að skoða sérstaklega varðandi stjórnarskrána (Forseti hringir.) og líka að sjá hvort það stenst hreinlega þingsköp, (Forseti hringir.) að gjörbreyta málinu í meðförum þingsins án þess að leggja það fram aftur. Ég ætla (Forseti hringir.) að athuga það núna.