150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um þessi vinnubrögð í nefndum sem eru vitanlega mjög sérstök, ekki síst í ljósi þess að á sama tíma er meiri hlutinn að reyna að fá stjórnarandstöðuna til að setjast niður og ræða þinglokin.

Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni að það sé óviðeigandi að forseti gefi hér einhverjar stjörnur. Það eru aðrir sem gera það. Kjósendur veita þingmönnum á endanum einkunn. Hún getur verið áframhaldandi starf eða falleinkunn. Það er ekki forseti eða annar sem ákveður það.

Mig langar að nota tækifærið og koma því hér á framfæri, hæstv. forseti, vegna orða forseta Alþingis áðan, að það voru gerðar athugasemdir á fundi þingflokksformanna við dagskrána. (Gripið fram í.) Í fyrsta lagi voru gerðar athugasemdir við þann tíma sem á að nota í umræðu í dag. Í öðru lagi voru gerðar athugasemdir við að mál sem er kannski einna brýnast að ræða akkúrat núna, húsnæðislánafrumvarp félags- og barnamálaráðherra, yrði sett aftast á dagskrána. Ýmsar athugasemdir komu fram á fundinum. (Forseti hringir.) Það var ekki athugasemdalaus fundur.