150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hér öðru sinni til að ræða fundarstjórn forseta. Eins og í hið fyrra sinn ætla ég að víkja ögn að þeim sið hæstv. forseta að gefa umræðu þingmanna einhvers konar einkunnir að lokinni umræðu með einhverjum ummælum um að þetta hafi ekki verið þarfleg umræða, ekki verið merkilegt eða þar fram eftir götunum. Þá hefur hann sérstaklega, hæstv. forseti, gert athugasemdir við að þingmenn noti púltið og þennan lið til þess að vekja máls á óleystum deilumálum og þrætumálum innan nefnda, þar sem allt er kannski í hnút. Þingmenn hafa notfært sér þennan vettvang til að koma fram með þau (Forseti hringir.) álitamál og deilumál fyrir þingheim. Ég tel að það sé mikilsverður réttur þingmanna (Forseti hringir.) að nota þennan ræðustól til slíkra efna.