150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Umræða um fundarstjórn forseta hefur ítrekað verið notuð í mjög víðum skilningi. Það er eðlilegt enda er fundarstjórn forseta mjög vítt valdsvið, nær inn í nefndir og ýmis önnur svið, t.d. hefur oft verið fjallað um siðareglumál hér. Eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minntist á þá er lokadómurinn kosningar.

Mig langar að minnast samt á það, því að þetta skiptir rosalega miklu máli, að þrátt fyrir að það verði kosningar eru þær ekki afsökun, og uppreist æru eða eitthvað slíkt, fyrir hverju sem þingmenn eða ráðherrar gera. Það að ráðherra geti stungið skýrslu undir stól og falið hana fram yfir kosningar — og það urðu kosningar þar sem allir vissu af þessu og nú er það bara komið í dóm kjósenda og komið nýtt umboð — afsakar ekki misgjörðir, (Forseti hringir.) það gerir það ekki. Við skulum líka hafa það í huga.