150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ánægjulegt að hlusta á hana. Það er augljóst að hv. þingmaður hefur góða þekkingu á málinu.

Það sem mig langaði að fara aðeins yfir eru þessi órjúfanlegu tengsl, ef svo má að orði komast, milli ársreikninga og endurskoðenda. Við þekkjum það að endurskoðendur gegna mikilvægu hlutverki, þeir fara yfir bókhald skráðra fyrirtækja og gefa álit sitt á ársreikningum og því hvort þeir gefi glögga mynd af rekstri félaga. Það er eitt helsta tækið sem notað þegar fjárfestar eru að meta fyrirtæki og fjárfestingar tengdar því. Þá skipta einmitt ársreikningarnir mestu máli þannig að hlutverk endurskoðenda er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt, finnst mér, að ræða það svolítið í samhengi við þetta mál.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um er hvort hann telji að eftirlit með störfum endurskoðenda sé nægilega skilvirkt, hvort við þurfum að bæta okkur í þeim efnum vegna þess að það er (Forseti hringir.) mjög mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækja í tengslum við ársreikninga.