150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil úr þessum stól kalla aftur eftir því að forseti og þingflokksformenn setjist niður og málin séu rædd, að dagskráin sé ákveðin í þokkalega góðu samtali og samstarfi milli allra flokka. Það er ánægjulegt að forseti Alþingis sé búinn að boða þingflokksformenn á sinn fund eftir tíu mínútur. En þetta er ákveðinn leikur sem hér á sér stað, það sjá allir, einhver klassísk störukeppni sem við höfum öll fordæmt, hvort sem við erum í minni hluta eða meiri hluta. Nú skulum við bara komast upp úr þessum hjólförum, upp úr þessum skotgröfum, og semja um hvaða mál fari í gegn og hvaða mál þurfi frekari vinnu.

Við erum lítið samfélag og við þurfum ekki að vera í þessari átakapólitík sem blossar alltaf upp tvisvar sinnum á ári, eins og hér hefur verið sagt. Við getum náð miklu betur saman en þá þurfa báðir hópar að taka tillit hvor til annars og núna er boltinn svolítið hjá stjórnarmeirihlutanum. (Forseti hringir.) Við í minni hlutanum höfum verið dugleg að samþykkja allar tillögur í Covid-málum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram en hún hefur ekki gert það sama gagnvart tillögum okkar. (Forseti hringir.) Snúum bökum saman og náum ásættanlegu þinglokum þar sem allir geta gengið stoltir frá borði.