150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get alveg talað lengur en í eina mínútu.

(Forseti (BN): Hv. þingmaður hefur bara ekki lengri tíma.)

Það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór yfir er auðvitað einkenni vandans sem Alþingi hefur átt við að glíma í langan tíma. Hann er sá að það er svo óhugsandi, það er algerlega úti á túni í hinum sameiginlega huga Alþingis að afgreiða mál einfaldlega málefnalega út frá efnisatriðum hvers máls, óháð því hvaðan þau koma og óháð því hvaða pólitísku hagsmunir liggja að baki málsmeðferðinni sjálfri, að til hefur orðið sú hefð, sú skrýtna og undarlega og að mínu mati skaðlega hefð að þurfa að semja sérstaklega um það hvaða mál fái fulla meðferð á þingi og hver ekki.

Ég held að í hvert sinn sem fólk uppgötvar í fyrsta sinn í lífinu hvernig þetta virkar, hvort sem það eru áhorfendur eða þingmenn sjálfir, hljóti það að hneykslast nokkuð mikið. Það er ekkert málefnalegt við það hvernig þetta virkar. En ástæðan er sú að fólk beitir valdi sínu ómálefnalega gagnvart málsmeðferðinni. Um leið og það er lagað með einhverjum hætti (Forseti hringir.) þarf ekki að koma upp sú staða sem er komin upp núna. Þetta er ekki miklu flóknara en það, en valdið er í höndum meiri hlutans þegar kemur að þessu. Það er á ábyrgð meiri hlutans á að breyta því.