150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:57]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst sú staðreynd mjög áhugaverð að í dag fæðist íbúafjöldi Íslands á jörðinni. Á morgun fæðist aftur sá fjöldi og dag eftir dag. Ég dreg fram þessa staðreynd til að sýna að við erum ekki milljónasamfélag hér. Við erum ekki tugmilljónasamfélag sem hefur margvíslega og flókna hagsmuni. Við erum lítið samfélag, við erum eitt minnsta samfélag sem þekkist meðal þjóða. Þess vegna leiðist mér þessi átakafarvegur sem við lendum aftur og aftur í. Hann er óþarfi, hann skilar engu. Við vitum að til að ná þinginu saman að lokum er samið. Af hverju er þá ekki einfaldlega samið núna? Af hverju erum við í þessum leik, hvort sem við erum í stjórnarmeirihluta eða ekki, til að skapa einhverja samningsstöðu? Þetta er svo grímulaust hjá okkur öllum að við erum ekki að blekkja neinn nema okkur sjálf.

En til að hægt sé að semja þarf að vera samningsvilji af beggja hálfu. Minni hlutinn er tilbúinn til samninga en svo virðist ekki (Forseti hringir.) vera hjá meiri hlutanum. Komið að borðinu, leysið þessi mál. Það fer auðvitað ekki allt í gegn. Langflest fer í gegn (Forseti hringir.) sem meiri hlutinn vill, en berið endilega meiri virðingu fyrir málsmeðferðinni og lagasetningu heldur en þetta andrúmsloft kallar fram.