150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[16:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Meginefni frumvarpsins, eins og fram hefur komið í umræðunni, er að breyta og að hluta til rýmka heimildir til að fella niður sektir lagðar á vegna of síðbúinna skila á ársreikningum í tengslum við það þegar félögum er slitið. Það er ágætisaðgerð að verið sé að færa þann þátt til betri vegar en ég vildi nota tækifærið til að vekja athygli á öðrum athugasemdum sem komu fram í tengslum við íþyngjandi hluti í þessu regluverki sem mætti vel taka tillit til til þess að létta af atvinnulífinu.

Ég held að það hafi verið árið 2016 sem hert var verulega á heimildum, bæði til að leggja á stjórnvaldssektir vegna seinna skila ársreikninga. Síðan, ef ég man rétt, var árið 2017 áfram farið í þá vegferð að ýta skattskilum fyrirtækja framar á árið, sem sagt þeim tíma sem fyrirtæki þurftu að skila ársreikningum fyrir án þess að fá á sig sekt vegna seinbúinna skila. Ég verð að viðurkenna að hvað það atriði varðar hljómaði það dálítið eins og einhverjir embættismenn hefðu fengið gæluverkefni í gegn. Rökin voru þau, ef ég man rétt, að þetta auðveldaði áætlunargerð stjórnvalda. Ég held að með því að ýta ársreikningsskilunum framar í tíma hafi ekki verið gerð stórkostleg breyting á gæðum áætlana stjórnvalda. Það sem gerðist var auðvitað það að kostnaður við framkvæmdina jókst, vegna þess að endurskoðendur og endurskoðunarskrifstofur landsins voru allt í einu komnar í þá stöðu að þurfa að klára töluvert mikið fyrr þann fjölda fyrirtækja sem menn höfðu áður fram á haustið til að klára. Ég hef ekki séð neinar grundvallarbreytingar sem urðu við það, við bætta spágetu ríkisins hvað eigin tekjustýringu, skattheimtu og annað slíkt varðar. Ég held að niðurstaðan hafi fyrst og fremst verið sú að auka á kostnað fyrirtækja sem nýta sér þá þjónustu, einfaldlega vegna þess að endurskoðendur þurftu að vinna sama magn verkefna, endurskoða sama fjölda fyrirtækja og áður á skemmri tíma innan ársins sem orsakaði síðan að áberandi minna var að gera í þeim verkefnum eftir að þeir frestir voru liðnir. Það skapaði því óhagræði algerlega að óþörfu án þess að neitt ákveðið kæmi til hagræðis á móti.

Þótt ekki sé bent á þetta atriði er bent á aðra þætti sem hefði verið mögulegt að horfa til, til hagræðingar fyrir atvinnulífið og kostnaðarlækkunar, í umsögnum Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins við frumvarp þetta. En það virðist hafa verið tekin ákvörðun í nefndarvinnunni hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd að líta ekki til þeirra sjónarmiða og ábendinga á þessum tímapunkti. Þar er kannski helst um að ræða sjónarmið sem snúa að stærðarmörkum fyrirtækja sem mynda heimild til þess að fá undanþágu frá endurskoðuninni. Það er gagnrýnt sérstaklega í áliti Samtaka iðnaðarins að þau mörk séu of lág, eins og segir í umsögn þeirra, með leyfi forseta:

„Núverandi eigna- og tekjuviðmið hafa haldist óbreytt frá árinu 2014 en frá 2014–2019 hækkuðu meðaltekjur framleiðslufyrirtækja um 37%.“

Það eitt og sér hefur orsakað það að hlutfallslega fleiri og fleiri fyrirtæki fá á sig meira íþyngjandi skyldur hvað þetta varðar.

Í kafla sem ber fyrirsögnina Aukin stjórnsýslubyrði á lítil félög í fyrrnefndri umsögn segir, með leyfi forseta:

„Eitt af meginmarkmiðum tilskipunar Evrópusambandsins (2013/34/ESB) sem innleidd var með breytingarlögum nr. 73/2016 var að draga úr stjórnsýslubyrðum og íþyngjandi kröfum, m.a. með einföldun regluverks.“

Síðan benda Samtök iðnaðarins á að í dag sé horft til þess að stærðarmörkin séu heildareignir upp á 200 milljónir, ársvelta upp á 400 milljónir og ársverk upp á 50. Ég held að ég muni það rétt að fyrirtæki þurfi að vera yfir tveimur af þremur þessara marka til að falla undir skyldur hvað það varðar að skila af sér endurskoðuðum ársreikningi. En það sem Samtök iðnaðarins benda á þarna, og réttilega vil ég meina, er að í 2. gr. laga um ársreikninga eru lítil félög skilgreind með allt öðrum hætti. Þar eru eignaviðmiðin 600 milljónir, veltan 1.200 milljónir og ársverkin sami fjöldi, 50. Þarna munar auðvitað verulega miklu. Samkvæmt 2. gr. laga um ársreikninga er skilgreining á litlum félögum þreföld sú upphæð hvað eignir og veltu varðar sem tilgreind er í stærðarmörkum í 1. mgr. 98. gr. laga um ársreikninga. Ég hefði talið alveg augljóst að skynsamlegt væri að ganga aldrei skemur en þetta í því að auka svigrúm og minnka þann kostnað sem endurskoðunin skilar, því að það er auðvitað þannig að rökin geta verið á þeim nótum, fyrir því að herða á kröfunum, að viðskiptaaðilar hafi aðgengi að upplýsingum um raunverulega stöðu rekstraraðila og þar fram eftir götunum. En þegar það snýst um að lána til að mynda fé, hvort sem það er banki eða birgir í einhverjum viðskiptum, þá hafa slíkir aðilar öll þau tæki og tól sem þörf er á til að kalla eftir upplýsingum, kalla eftir endurskoðuðum ársreikningi. Ef það er það sem til að mynda banki telur forsendur þess að endurfjármögnun, eða fjármögnun yfir höfuð, eigi sér stað þá gera bankar eða birgjar það bara. Það þarf því ekki að uppáleggja öllum þessum mikla fjölda að fara í það sem er töluvert dýr viðbót, fara í endurskoðaðan ársreikning í stað þess að fara í — ég er ekki með fyrir framan mig hugtökin sem notuð eru — ársreikning án áritunar endurskoðenda þrátt fyrir að endurskoðandi hafi mögulega unnið ársreikninginn.

Ég held að það hefði verið skynsamlegt að taka tillit til ábendinga Samtaka iðnaðarins því að við þekkjum að víða í regluverkinu eru kvaðir á fyrirtæki, sérstaklega þar sem verið er að uppáleggja þeim að skila af sér eða vinna hluti með hætti sem örfyrirtækjum úti í Evrópu t.d. væri aldrei uppálagt að undirgangast. Flest fyrirtæki á Íslandi eru það sem samkvæmt Evrópuregluverkinu væri skilgreint sem örfyrirtæki en við hér heima höfum því miður oft lagt þá línu að lækka viðmiðunarmörk í veltu, hagnaði eða umfangi þannig að meira íþyngjandi regluverk falli á smærri fyrirtæki hér en erlendis þó að í eðli rekstrarins sé auðvitað ekkert sem réttlætir það. Það er ekkert sem réttlætir það til að mynda að endurskoðunarkostnaður, af því að við erum að ræða um þessi tilteknu lög hér, lög um ársreikninga, sé hærri hjá örfyrirtækjum á Íslandi en hjá örfyrirtækjum annars staðar í Evrópu. Ég vil beina því til efnahags- og viðskiptaráðherra og í framhaldinu efnahags- og viðskiptanefndar að horfa til þess að setja af stað vinnu þar sem tekið verði tillit til þessara sjónarmiða. Þetta hefur alvöruáhrif á kostnað smærri fyrirtækja.

Samtök atvinnulífsins komu inn á atriði í umsögn sinni sem mig langaði að halda til haga og það snýr að mati á fjölda starfsmanna. Eins og ég sagði áðan kemur fram í áliti Samtaka iðnaðarins, með vísan í 2. gr. laga um ársreikninga og stærðarmörkin í 1. mgr. 98. gr. sömu laga, að í báðum tilvikum er miðað við að ársverk séu 50. Fari félag yfir það viðmið þá kalli það á endurskoðun ársreikninga. Samtök atvinnulífsins benda á það í umsögn sinni að hugtakanotkun þvælist að einhverju marki fyrir okkur í því samhengi. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Líkt og áður var fjallað um“ — og er þar vísað í fyrri síður umsagnar Samtaka atvinnulífsins — „er mismunur á fjölda starfsmanna eftir því hvaða skilgreiningu er miðað við, sbr. taflan hér að framan.“ — Þar sem er úttekt á fjölda starfsmanna. — „Þar eru áætluð 175 þúsund ársverk árið 2018 en meðaltal starfandi 12 mánuði sama ár eru 203 þúsund. Meðaltal starfandi er samkvæmt því um 16% hærra en áætluð ársverk og því væri eðlilegt að viðmiðið í 1. mgr. 98. gr. hækkaði í 60 og undanþágan næði til fyrirtækja þar sem fjöldi starfsmanna að jafnaði á ársgrundvelli er undir 60.“ — En ekki 50.

Undir þetta skrifar yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins og ég held að þessi ábending sé þeirrar gerðar að ef málið og þetta regluumhverfi verður tekið til endurskoðunar hvað upphæðar- og stærðarmörk varðar sé eðlilegt að taka sömuleiðis tillit til þess sjónarmiðs. En fyrst og fremst held ég að það skipti máli að sú nálgun — sem birtist þarna á árunum 2016, 2017, ég man ekki nákvæmlega hvenær það var, þar sem þessar verulega auknu heimildir til álagningar stjórnvaldssekta voru lögfestar og hins vegar það að skilum ársreikninga var flýtt töluvert í tíma innan ársins — bendi ekki til þess að það sé djúpur skilningur á því að viðbótarkostnaður vegna slíkra íþyngjandi aðgerða geti skipt máli. En hann gerir það einfaldlega. Þetta safnast upp hjá litlum fyrirtækjum sem væru skilgreind sem örfyrirtæki í alþjóðlegu samhengi. Þá skiptir einfaldlega máli ef 1–2 milljónir bætast við vegna endurskoðunarkostnaðar innan ársins því að það er hvergi tekið nema af rekstrarniðurstöðu ársins hjá flestum fyrirtækjum. Það er erfitt að koma þeim kostnaði fyrir annars staðar en á því verði sem hægt er að rukka á markaði hverju sinni.

Eins og ég kom inn á í byrjun held ég að sú breyting sem er verið að gera hér sé ágæt en hún er dálítið tæknilegs eðlis og mann grunar að þetta sé lausn eða ákvörðun eða upplegg sem á rót sína að rekja einhvers staðar inni í kerfinu en sé ekki pólitísk ákvörðun eða hugmynd. Ég held að við ættum að ganga miklu lengra í því, og þá er ég ekki að tala um að gefa eftir af því að fyrirtæki haldi vel utan um rekstur sinn og upplýsingar séu aðgengilegar, en ég held að við ættum að einbeita okkur að því að útfæra reglurnar þannig að kostnaður fyrirtækja við þá þætti (Forseti hringir.) rekstursins verði eins hóflegur og nokkur kostur er. (Forseti hringir.) Í því samhengi vil ég taka sérstaklega undir umsagnir Samtaka iðnaðarins annars vegar (Forseti hringir.) og Samtaka atvinnulífsins hins vegar.