150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:09]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar, eins og ég rakti í ræðu minni, að leggja áherslu á að almannafé sé nýtt til að styðja við tekjulægstu hópa samfélagsins. Það gerum við með þessu úrræði. Við erum að nýta ríkisfé, vaxtalaust, til að styðja við tekjulægstu hópa samfélagsins til þess að þeir geti komið sér þaki yfir höfuðið eins og allir hinir. Af hverju? Vegna þess að það hefur sýnt sig að tekjulægstu hóparnir eru þeir sem festast á leigumarkaði. Það hefur sýnt sig síðustu tíu ár að það eru fyrst og fremst þeir hópar sem hafa verið að festast á leigumarkaði en á sama tíma sýna kannanir að hátt í 90% þeirra vilja komast í eigið húsnæði. Þetta eru fjölskyldur, þarna eru barnafjölskyldur og það er líka kostnaður fyrir ríkissjóð að geta ekki skapað þeim og þessum viðkvæmu hópum húsnæðisöryggi og komið þar af leiðandi í veg fyrir tilheyrandi flutninga, t.d. á milli skóla fyrir börn, rótleysi og annað slíkt. Þannig að við erum að taka pólitíska ákvörðun, hv. þingmaður, um að styðja við tekjulægstu hópana og við gerum það stolt og ánægð. (Forseti hringir.) Ég er mjög ánægður með að við séum að gera það með þessu frumvarpi.