150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en mig langar að nota tækifærið og fara nokkrum orðum um þetta mál, kannski ekki síst til að fagna því að það stefnir í, ef ég les þetta rétt á dagskránni, að við náum að klára 1. umr. um málið í kvöld. Það skiptir töluvert miklu máli að fá það strax inn til nefndar á mánudaginn vegna þess að það er að mörgu að huga, sérstaklega í ljósi þess að ef fram fer sem horfir og við ætlum að reyna að ná að klára þetta mál munum við ekki fara í gegnum hefðbundna þinglega meðferð með umsögnum og gestakomum svo vikum skiptir eins og kannski umfang málsins og nýjung þess kallar á. Þess mikilvægara er, og ég vona að hæstv. ráðherra fái skilaboðin þótt hann hafi brugðið sér frá, að ráðuneytið sem mætir væntanlega til okkar strax eftir helgi með upplýsingar geti svarað í fyrstu umferð þeim spurningum sem við höfum. Það er ansi margt hérna, mörg skilyrði og margar forsendur sem eru lagðar fram í málinu sem hljóta að hvíla á upplýsingum og samantekt gagna, ég geng út frá því, sem við munum ekki hafa tíma til að sækja okkur sjálf eftir hefðbundnum leiðum í þinglegri meðferð. Það er því óskandi að við höfum það tiltækt eins og hægt er.

Ég verð að nefna sérstaklega það sem mér finnst við þessa fyrstu hröðu umferð erfiðast að skilja í þessu máli. Markmiðið er gott og ég skil það. Ég átta mig á þessum tengslum við lífskjarasamningana. Við vitum öll hve erfið staðan er á húsnæðismarkaði og kúrfan hefur farið í þá átt að hún er erfiðari fyrir ungt fólk. Það eru upplýsingar sem koma hér skýrt fram, það er erfiðara fyrir þessa hópa að koma undir sig fótunum. Það er mjög gott að við erum að mæta því. En ég átta mig ekki alveg á skilyrðinu um að það megi bara lána fyrir nýjum íbúðum. Við erum búin að ræða þetta hér í andsvörum og ég hef heyrt svör ráðherra, en mig vantar gögnin á bak við. Það eru alls konar forsendur þarna sem við þurfum að sannreyna. — Nú gengur hæstv. ráðherra í salinn og þá ætla ég að nota tækifærið og segja það aftur og árétta þá ósk mína að við fáum þessar upplýsingar strax í fyrstu umferð þegar ráðuneytið mætir á staðinn. Við munum ekki hafa tíma til að kalla eftir þeim öðruvísi. Þegar hæstv. ráðherra segir: Við ætlum að gera þetta svona til að forðast þenslu á markaði, þá spyr ég: Er búið að skoða það að þessi tiltekni fjöldi íbúða sem væri að eigin vali en fólk fengi þessa aðstoð myndi skapa þenslu á markaði? Ég á auðveldara með að skilja þau rök sem komu síðan að ákvörðunin er til að vernda fjárfestingu ríkisins af því að nýjar íbúðir eru líklegri til að halda verðgildi sínu. Samt er fátt sem heldur verðgildi sínu betur en íbúðir, ef vel er um þær hugsað, og sumar hækka jafnvel í verði. Aðrar lækka eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson benti á. Það eru gjarnan nýju íbúðirnar sem lækka fyrst vegna þess að hverfin eru þess eðlis, þau eru ekki orðin rótgróin og þroskuð. Það eru því alls konar breytur í þessu og mér finnst mjög bratt, miðað við þau gögn sem ég hef hér, að ganga út frá því að þetta leysist með skilyrðinu um nýjar íbúðir. Það hefur ákveðinn fórnarkostnað í för með sér. Það hefur kostnað í för með sér að það er sett helsi á frelsi fólks til að velja sér búsetu ef það þarf og ætlar að nýta sér þetta úrræði. Það getur haft alls konar afleiðingar. Hugleiðingin um gettó sem kom hér fram áðan, ég óttast það kannski ekki sérstaklega, en það er einu sinni svo að hér erum við ekki bara að huga að ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref og er eðli málsins vegna sveigjanlegra — ég held að við þekkjum það mörg að fyrsta íbúðin er kannski ekki óskaíbúðin að öllu leyti nema fyrir það að hún var fyrsta íbúðin — við erum líka að vinna fyrir hóp fólks sem er tekjulágt með börn og hefur annaðhvort verið á leigumarkaði lengi, fast þar, eða hefur átt íbúð sem það á af einhverjum ástæðum ekki lengur. Með öðrum orðum, fólk sem er búið að festa rætur einhvers staðar. Ég sé ekki rökin fyrir því að stíga inn í og taka ákvörðun fyrir þennan hóp um hvar hann á að kaupa ætli hann að nýta sér þetta úrræði. Ég sé þau rök ekki eins og er.

Síðan er annað sem ég hlakka til umræðu um og það er að fara ofan í hvað hagkvæm íbúð þýðir. Þegar ég les textann finnst mér það vera heilbrigð skynsemi að fólk sníði sér stakk eftir vexti, eins og það hét í gamla daga, hvað varðar stærð og fjárhagslega getu. Þá erum við farin að tala um að allar íbúðir falli þar undir líka. Það er mjög áhugavert. Áfram verður umræða um völd, ef menn vilja kalla svo, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að taka ákvarðanir. Ég velti fyrir mér þegar talað er um nýjar og hagkvæmar íbúðir á grundvelli samnings byggingaraðila við stofnunina: Erum við að tala um að samningurinn sé gerður fyrst og íbúðin byggð svo eða á þetta við íbúð sem var byggð í fyrra? Hún er ný. Fellur hún undir þetta eftir að málið hefur orðið að lögum? Þetta er ansi margslungið.

Ég hlakka til að taka umræðuna um þessi mál. Mér finnst líka jaðarmál í þessu öllu og mjög spennandi umræða þetta með séreignarsparnaðinn. Ég heyrði hvað hæstv. ráðherra sagði í andsvörum við mig og skoðun hans á því að nýta séreignarsparnað í að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég get að mörgu leyti tekið undir að í því felst ákveðinn lífeyrir. En þetta er samt stefnubreyting frá því sem ætlast var til þegar þau lög voru sett á sínum tíma. Þá erum við aftur að taka ákvörðun fyrir fólk. Ef við förum að sveigja smám saman í þá átt að séreignarlífeyrissparnaður verði í raun húsnæðissparnaður er það umræða sem þarf að taka á svolítið stærri vettvangi. Þar hefur líka áhrif sem margir hafa óttast, kannski með réttu þegar litið er til sögunnar, samspil séreignarsparnaðar við almenna lífeyrissparnaðinn og ótta hjá þeim sem eru með góðar upphæðir í séreignarsparnaði að það verði inngrip í annan lífeyrissparnað, ekki að það sé ástæða til þess hér og nú að telja að svo verði. En ég nefni þetta vegna þess að öll inngrip í lífeyrissparnað fólks, hvort sem um er að ræða almennan lífeyrissparnað eða séreignarsparnað sem er efnt til á grundvelli laga, þarf að ræða öðruvísi en í sérstakri aðgerð hér þrátt fyrir að hún sé á grunni svokallaðra lífskjarasamninga.

Þetta er fínt mál. Ég hlakka til að takast á við það innan velferðarnefndar. Ég fagna því að við klárum 1. umr. um það í kvöld og veit að hæstv. ráðherra verður boðinn og búinn að mæta á fundi nefndarinnar þegar eftir því er óskað og veit líka að hann mun hvetja fólk sitt í ráðuneytinu til að mæta vel nestað af gögnum á fyrsta fund eftir helgi.