150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt margt í framsetningu framkvæmdarvaldsins til Alþingis sem skortir. Ég sé ekki hvernig sú sýn sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra kemur hér með í andsvari eða ræðu birtist í frumvarpinu. Ég sé ekki í greinargerðinni að hún raungerist. Frumvarpið er ekki útskýrt á þann hátt að það sé gagnsætt gagnvart hinum almenna lesanda hvort markmið þess náist. Þetta er almenn umkvörtun sem ég hef við upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu af því að það svarar alltaf út frá sínu sjónarhorni en ekki út frá því aðhaldssjónarhorni sem þingið þarf þegar það hefur eftirlit með framkvæmd fjárveitinga t.d. eða með því hvort stefna stjórnvalda sé í rauninni uppfyllt í svona frumvörpum.

Ég vona að það standist sem hefur verið sagt hérna um lífskjarasamninginn og þess háttar. Á sama tíma verð ég að sjálfsögðu að fá staðfestingu á því. Ég trúi því ekki bara í blindni. Það getur ekki virkað þannig. Á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds á að vera aðskilnaður sem við þekkjum svo sem að er mjög takmarkaður og mætti vera miklu meiri.

Á þeim rosalega stutta tíma sem Alþingi á að afgreiða mikilvægt mál sem kemur til með að þurfa mikla nákvæmni og í rauninni svigrúm, sérstaklega fyrir þá sem eru kannski í vafa um að fá svona aðstoð út af einhverjum tækniagnúum, þá held ég að það sé þó nokkuð sem ráðuneytið þarf að útskýra í nefndarvinnunni á gríðarlega (Forseti hringir.) stuttum tíma. Það verður áskorun sem ég hlakka til að (Forseti hringir.) sjá.