150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með henni þegar hún hefur áhyggjur af stöðu fólks með lágar tekjur út um landsbyggðina. Ég tel afar mikilvægt að sú umræða sé tekin í hv. velferðarnefnd. Þó að endursöluverð úti á landi sé lægra en á höfuðborgarsvæðinu er byggingarkostnaðurinn hár. Það er dýrt að byggja úti á landi og síðan fellur verðið á húsnæðinu strax því að endursöluverðið er lægra. Ég er ánægð með að hv. þingmaður taki þetta mál fyrir í nefndinni.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sjái ekki líka vankanta á því á höfuðborgarsvæðinu að hlutdeildarlánin séu bundin við nýbyggingar. Leigjendur og fólk með lágar tekjur leigir kannski í grónum hverfum, börnin ganga þar í skóla og þessi hverfi eru jafnvel þannig að þau þarfnast endurnýjunar. Að binda lánin við nýbyggingar hlýtur líka að hafa ókosti ef hugað er að þessum málum.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji að hægt sé að lyfta þessu hvoru tveggja upp þannig að staða fólks með lágar tekjur sé ekki bundin við úthverfi eða ákveðna staði þar sem verið er að byggja á höfuðborgarsvæðinu.