150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið til máls við 2. umr. með gagnlegar ábendingar og aðfinnslur sem ég tel að hafi flestum hverjum verið tekið á og þær afgreiddar með viðeigandi hætti í frumvarpinu og nefndarálitinu sem liggur fyrir.

Ég vildi í lokin, af því að ég náði ekki til lands í máli mínu áðan áður en ég féll á tíma, rétt tiltaka viðkvæmasta hluta þessa máls sem útheimti hvað mestar umræður og gestakomur í nefndinni og til hvaða ráða nefndin tók til að koma til móts við það. Þetta lýtur að samningsveðum. Það nýmæli var lagt til í frumvarpinu, eins og það lá fyrir frá dómsmálaráðherra, að nauðasamningar eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. án undangenginna gjaldþrotaskipta gætu einnig tekið til samnings veðkrafna, samanber 2. mgr. 20. gr. og b-lið 24. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu var lagt til að breytingin yrði gerð varanleg. Við meðferð málsins voru gerðar athugasemdir þess efnis að gengið væri á rétt kröfuhafa án þess að þeim væri tryggð full aðkoma að málinu. Slík tilhögun hefði getað haft veruleg áhrif á gildi og gagnsemi veðsins og gengið á eignarrétt þess sem veðið á. Þá þyrfti slík varanleg breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nánari skoðun, m.a. hvort afmarka ætti slíka heimild aðeins við kröfur sem tryggðar eru með veði eða tryggingarréttindum í verðmætum sem eru jafnan stöðug, t.d. fasteignum. Jafnvel væri tilefni til að fella brott 24. gr. frumvarpsins eða gera hana tímabundna að svo stöddu.

Nefndin var upplýst um að það að nauðasamningar hafi ekki tekið til samnings veðkrafna hafi hindrað gerð nauðasamnings og er frumvarpinu ætlað að bregðast við því. Á fundum nefndarinnar var áréttað að ekki sé verið að fella niður höfuðstól þessara krafna heldur einungis verið að veita heimild til að breyta greiðsluskilmálum kröfu, þar á meðal að lengja lánstíma. Meiri hlutinn bendir á að fyrir liggur að lög um gjaldþrotaskipti o.fl. þarfnast endurskoðunar og í ljósi þess telur meiri hlutinn æskilegt að meta reynslu og árangur af slíkri breytingu og að teknu tilliti til hagsmuna veðhafa áður en gerðar eru varanlegar breytingar af því tagi.

Meiri hlutinn leggur því til að í stað 31. gr. a, samanber b-lið 24. gr. frumvarpsins, komi ákvæði til bráðabirgða í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og verði þannig afmarkað við fjárhagslega endurskipulagningu samkvæmt frumvarpinu að öðru leyti. Enn fremur leggur meiri hlutinn til að heimild til að lengja lánstíma eða fresta gjalddaga á greiðslu hluta skuldarinnar eða hennar allrar í allt að þrjú ár, að sá tími verði styttur niður í allt að 18 mánuði. Sú breyting er m.a. gerð með hliðsjón af því að veð hafi mismunandi verðgildi. Þetta voru sem sagt viðbrögð meiri hluta nefndarinnar við því atriði sem olli hvað mestum umræðum á vettvangi nefndarinnar þegar frumvarpið var þar til umfjöllunar.