150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka. Ég ætla að sjá hvað ég kemst yfir. Í fyrsta lagi tek ég undir með meiri hlutanum sem fagnar framtíðarsýn um greiningu á jarðgangakostum, því að það skiptir máli að hafa einhverja heildarsýn byggða á faglegum forsendum. En mig langar að spyrja hvernig þingmanninum finnst það ríma við PPP-framkvæmdirnar. Búin er til hjáleið fyrir ákveðna tegund framkvæmda fram hjá faglegu forgangsröðuninni. Leiðin til að komast inn á PPP-listann er að passa inn í ákveðið fjármögnunarmódel, en ekki endilega þjóðhagsleg nauðsyn framkvæmdarinnar. Finnst hv. þingmanni þessar nálganir kallast á, sérstaklega þegar við sjáum að PPP-verkefni kosta, samkvæmt greinargerð frumvarps um þau, 20–30% meira en ríkisframkvæmdir? Það er líka óljóst, ef eitthvað er að marka minnisblað fjármálaráðuneytisins um það mál, hvort þessar reikningskúnstir komi framkvæmdunum yfir höfuð fram hjá því að leggjast inn í A-hluta, sem er í raun helsti tilgangurinn með því að búa til PPP-kerfið sem hjáleið.