150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera aðeins á undan minni framtíð og vera í hátíðarskapi í dag í tilefni þess að á morgun er 17. júní, og lýsa yfir stolti mínu, hvað ég er stoltur af þjóð minni; hvað hún hefur staðið sig vel í samstöðu í baráttunni við Covid-19. Það hefur sýnt manni að sá kraftur sem því fylgir að standa saman gefur mikinn árangur. Þríeykið fræga hefur staðið sig með afbrigðum vel og er mjög ánægjulegt að sjá hvað það ætlar að endast vel. Það sást vel í gær þegar byrjað var að opna landamærin, en þríeykið hefur verið þar í undirbúningi og er að vinna við það og nýtur þar fulls trausts þjóðarinnar. Það lofar góðu eftir því sem fréttir gærkvöldsins sögðu manni.

En framtíðin er óljós og við vitum ekki alveg hvað hún ber í skauti sér í þessum efnum frekar en öðru í lífinu. Nú berast fréttir af endurupptöku faraldursins úti í heimi, en ég trúi því og treysti að okkur takist að halda áfram á þessari vegferð. Við höfum reynslu í þeim efnum og það hefur tekist vel og við getum byggt á þeirri reynslu áfram. En það sem er nú þegar komið inn á borð hjá okkur stjórnmálamönnum er að fást við efnahagslegar afleiðingar faraldursins og það verður þungur róður. En ég trúi því, og við höfum líka reynslu af því að vinna okkur upp úr efnahagslegum krísum, að við getum lært af því öllu saman og framtíðin geti verið björt.