150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:23]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

„Menn hafa ekki hugmynd um hvaða leið á að fara,“ segir hv. þingmaður. Það er bara alrangt. Menn vita nákvæmlega hvaða leið þeir ætla að fara. Þeir ætla að leggja borgarlínu með rafknúnum tækjum, þrjár leiðir í gegnum borgina og út í nágrannasveitarfélögin. Það er búið að reikna út heildarsummuna nokkuð nákvæmlega. Það er búið að skoða ákveðnar sviðsmyndir og reikna þær út. Það er til mat á samfélagslegum, loftslagslegum og ýmiss konar öðrum afleiðingum þessara aðgerða. Og það sem meira er, það er alveg rétt að þegar kemur að þessum samvinnuverkefnum eru Sundabraut og hugsanlega Hvalfjarðargöng einhvers staðar langt fram undan. En hin fjögur eru mislangt á veg komin í undirbúningi og t.d. er hægt að byrja á brúnni yfir Ölfusá mjög fljótlega. Þannig að það er alrangt að menn vaði í villu og svíma.

Það sem er óþægilegt fyrir margan manninn er að það er verið að fara nýjar leiðir þar sem ekki er hægt að reikna út frá fyrsta degi, áður en farið er af stað, allar vendingar málsins, málsliði, meira að segja rekstrarkostnað á t.d. borgarlínunni. Það er mjög auðvelt að fá upplýsingar um rekstrarkostnað á tilteknum vögnum á hvern kílómetra o.s.frv., það er ekki málið heldur er málið að áætla grunnkostnaðinn, taka ákvarðanir um hvaða leiðir á að fara(Forseti hringir.) og það er búið að gera. Þetta samkomulag er til og það mun halda.