150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:57]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir afskaplega áhugaverða ræðu um samgönguáætlun. Hv. þingmaður kom inn á ýmsa punkta sem ég hef einmitt hugsað mér að nefna á eftir þannig að það er gaman að heyra hvað við erum sammála um margt.

Mig langaði líka, frú forseti, til að nýta tækifærið til að ræða ýmislegt fleira því að hv. þingmaður er jú flugmaður og talaði töluvert mikið um afturfarir á flugvöllum og ýmislegt í tengslum við þá. Það vakti t.d. hjá mér minningar um póstflugið í gamla daga þar sem ég er alin upp á Ísafirði. Þaðan var reglulegt flug yfir á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri, einfaldlega af því að það var ófært landleiðina. Sömuleiðis má nefna flug frá Akureyri til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar þar sem á þeim tíma var einfaldlega ekki hægt að fara landleiðina. Margir af lendingarstöðunum sem hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni eru einmitt gömlu póstlendingarstaðirnir.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um í tengslum við þetta, og það sem ég áttaði mig ekki alveg nægilega vel á þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns, var í rauninni hvaða gagn sé að því í dag að halda öllum þeim lendingarstöðum opnum. Þeim hefur gagngert verið fækkað smátt og smátt, þar á meðal í Holti í Önundarfirði þar sem var hreinlega girt yfir flugbrautina þannig að það er lítið gagn að henni. Mig langaði að velta þessu upp, (Forseti hringir.) ég er svolítið forvitin um svarið: Hvaða gagn er að því (Forseti hringir.) að halda þessum lendingarstöðum opnum?