150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

ályktun Félags prófessora.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki nein meint pólitísk þátttaka prófessorsins sem verið var að vekja athygli á. Vakin var athygli á því að prófessorinn hefði verið virkur í pólitík á sínum tíma, verið formaður í stjórnmálaflokki. Og já, ég tel að það sé alveg málefnalegt innlegg í umræðu um einstakling hvort hann hafi verið virkur í pólitík eða ekki. Það var aldrei fullyrt að viðkomandi væri enn formaður í flokki og áður en gengið var frá ráðningu var tekið af skarið með það.

Ég verð að segja að mér þykir stjórn Félags prófessora hafa fallið á þessu prófi, fallið á prófinu um raunhæfa verkefnið sem við höfum hér verið að ræða um. Ekki er tekið tillit til ólíkra sjónarmiða, ekki getið heimilda o.s.frv., byggt er á einhliða frásögn af málinu og komist að niðurstöðu algerlega án þess að ígrunda allar hliðar málsins.

Hér er einfaldlega ekki um að ræða mál sem réðist á pólitískum forsendum. Þessi ályktun hefur nákvæmlega ekkert vægi í umræðunni um þetta mál og það sama gildir um áhyggjur þessa prófessors í Svíþjóð, sem hv. þingmaður segir að sé heimsþekktur, og ég veit að hann er mikils virtur í Svíþjóð. Þá skiptir það bara engu máli inn í umræðu dagsins í dag hver upplifun hans er. Hann virðist hafa haft áhrif á að staðan var boðin Þorvaldi án þess að við Íslendingar værum spurðir og það er forkastanlegt. Það er aðalatriði máls að menn séu hér að véla um stöður sem við eigum að hafa áhrif á hvernig fara, hver velst til starfans. Og það er það sem hefur afhjúpast í þessu máli. Ég bendi hv. þingmanni að reyna að átta sig á aðalatriði málsins sem er að menn ætluðu sjálfir, án þess að spyrja okkur Íslendinga, að ráða þessu máli til lykta. Það er hneykslið í þessu máli.