150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

samkeppnishæfni Íslands.

[11:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það væri í sjálfu sér alveg tilefni til að taka sérstaka umræðu um samkeppnishæfnina, mælikvarðana, hvar við stöndum vel og hvar við getum gert betur. Ég hef í minni tíð í ráðuneytinu gjarnan látið fara fram ákveðna greiningu á þeim mælikvörðum og vil nota þá til þess að gera betur. Það er auðvitað rétt að það byrjar aðeins að draga úr hagvexti í fyrra og atvinnuhorfur versnuðu sérstaklega eftir fall WOW air sem hafði mjög mikil áhrif til skamms tíma. Það kann að hafa spilað inn í. Ég held hins vegar að of langt sé gengið að segja að fjármálaáætlunin, eins og hún fór í gegnum þingið, hafi verið einhvers konar undirrót þess að efnahagshorfur þóttu ekki eins traustar og áður hafði verið. Það er einfaldlega samspil margra þátta sem hefur gert það að verkum að í efnahagslegu tilliti hefur aðeins sigið á ógæfuhliðina hjá okkur. Það eru mjög mikil vandræði í ferðaþjónustunni.

Það sem mér finnst skipta miklu máli núna varðandi framhaldið er að við horfum á þá þætti þar sem við erum eftirbátar annarra. Ég ætla að fá að nefna hér eitt verkefni, sem ég held að skipti sérstaklega miklu máli, sem er Stafrænt Ísland. Þar held ég að við getum stóraukið skilvirkni hjá hinu opinbera, aukið framleiðni, fyrir utan það að bæta þjónustuna og auka trú og traust á opinbera kerfinu sem getur haft mjög mikil og jákvæð áhrif, losað um nýja krafta, létt atvinnulífinu í þessum samskiptum. Við höfum verið að fjármagna stórátak þar. En regluverkið er líka til skoðunar í stjórnkerfinu núna og ég held að við séum með of flókið regluverk á of mörgum sviðum. Við þurfum að halda áfram að einfalda það (Forseti hringir.) og setja okkur það markmið, sem mér finnst hv. þingmaður vera að gera kröfu um að, standa meðal þeirra sem standa fremst.