150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

hugtakið mannhelgi.

627. mál
[11:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Björn Hjálmarsson, barna- og unglingalæknir á BUGL, ritar í Læknablaðið á þessu ári, með leyfi forseta:

„Mannhelgi er réttur til persónulegs öryggis og hýsir sjálfsmynd okkar.“

Áfram segir Björn, með leyfi forseta:

„Mannhelgi varðveitir sjálfsákvörðunarrétt einstaklings, það er persónubundinn rétt manns til þess að vera og verða það sem hann sjálfur kýs sér. […] Mannhelgi eru okkar helgustu vé sem enginn mannlegur máttur má snerta, nema líf liggi við eða vel skilgreind samfélagsleg ógn.“

Gera má kröfu um samkvæmni til þeirra sem taka sér þetta mikilvæga hugtak, mannhelgi, í munn og þeim mun fremur sem þeir gera það oftar. Spyrja má hvort um samkvæmni sé að ræða þegar í hlut eiga þeir sem játa ekki því að ófædd börn í móðurkviði eigi þann lífsrétt sem mannhelgi þeirra áskapar þeim. Þessu svarar hver fyrir sig.