150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

heimilisofbeldi.

883. mál
[11:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Heimilisofbeldi er smánarblettur á íslensku þjóðfélagi. Það er okkur til vansa að það hafi aukist eins og raun ber vitni. Fyrir því eru örugglega margar ástæður en ég tel, og er sammála því sem kom fram áðan í ræðu hv. þingmanns, að dómaframkvæmdin sem við búum við hafi kannski ekki verið eins og æskilegt hefði verið. Ég minnist nýlegs dæmis um að fallið var frá gæsluvarðhaldsúrskurði yfir einstaklingi sem hafði sýnt af sér mjög gróft ofbeldi á heimili. Hann gekk laus og gat þá tekið til við fyrri iðju ef þannig bar undir. Við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að lögreglan í landinu sé vel undirbúin og geti tekið vel á. En því miður andar býsna köldu í garð lögreglunnar frá þessari ríkisstjórn.