150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

um fundarstjórn.

[11:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Um þessar mundir eru 4.000 manns á biðlistum eftir ýmsum aðgerðum. Það eru 4.000 einstaklingar sem eru annaðhvort heima hjá sér eða einhvers staðar annars staðar og kveljast á verkjalyfjum, jafnvel með lífshættulega sjúkdóma, sem bíða. Búið er að rífa skimanir á krabbameini frá Krabbameinsfélaginu inn á Landspítalann og bæta þar í tímann sem líður frá því að konur greinast þangað til þær geta komist í viðeigandi meðferð.

Við þessar aðstæður, frú forseti, er algjörlega óþolandi að heilbrigðisráðherra skuli komast upp með að vera ekki til svara út af þessu ástandi og vera ekki til svara fyrir það hvers vegna þeir möguleikar sem til eru í landinu til að stytta biðlistana eru ekki notaðir vegna þess að þeir sem geta veitt þjónustuna eru ekki rétt pólitískt litaðir. Það er óþolandi, frú forseti.