150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

framkvæmdir á vegum NATO hér á landi.

825. mál
[13:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað langar mig að segja að mér finnst sérlega ógeðfellt að fjalla um þann þrönga, afleidda ávinning sem hv. þingmenn telja samfélög njóta af hernaðaruppbyggingu og þar sé hægt að nýta fjármuni til alls konar samfélagslegra innviða. Það er fátt eða ekkert í heiminum sem leiðir til meiri sóunar á mannslífum og efnislegum gæðum og mengar meira en hernaðarátök. Það er því miklu nær að ráðstafa þeim peningum beint inn í samfélagslega innviði en ekki fara einhverja fjallabaksleið með því að gera það í gegnum (Forseti hringir.) hernaðaruppbyggingu.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tölurnar sem hann nefndi því að það er gott fyrir okkur að þekkja þær.