150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

aðgerðir til þess að verja heimilin.

786. mál
[13:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þetta mál sem er sannarlega mikilvægt. Stöðugt verðlag er enda eitt af meginmarkmiðum Seðlabanka Íslands. Það er, eins og fram er komið, skilgreint sem 2,5% verðbólga á tólf mánuðum. Eðlilegar sveiflur í efnahagslífinu leiða þó til þess að verðbólgan sveiflast í kringum þetta markmið. Það er mikið til vinnandi að tryggja stöðugt verðlag enda leiðir of há verðbólga ekki aðeins til hækkandi höfuðstóls verðtryggðra lána heldur til efnahagslegs kostnaðar fyrir allt samfélagið. Að sama skapi er almenn lækkun verðlags skýrt efnahagslegt veikleikamerki.

Það er skiljanlegt að Íslendingar óttist enn verðbólguna enda hræða spor fyrri efnahagsáfalla. Það hefur hins vegar náðst ótrúlegur árangur í baráttunni við verðbólguna undanfarinn áratug eða svo. Þrátt fyrir nokkra spennu í hagkerfinu og verulega lækkun gengis krónunnar haustið 2018 hefur verðbólgan frá þeim tíma áfram haldist lág og stöðug. Árleg verðbólga síðustu sjö ára nemur að meðaltali 2,4% og er því alveg við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þessi árangur í baráttunni við verðbólguna er að sjálfsögðu mikið gleðiefni og hefur leitt til mikillar og samfelldrar kaupmáttaraukningar sl. áratug. Að sama skapi hefur lækkun verðbólgu og tiltrú á efnahagsstefnuna gert Seðlabankanum kleift að lækka vexti mikið í yfirstandandi efnahagskreppu án þess að eiga frekara gengisfall á hættu.

Þótt vissulega hafi eiginfjárstaða íslenskra heimila versnað tímabundið vegna verðbólguskota hafa laun fimmfaldast og fasteignaverð rúmlega sexfaldast ef litið er aftur 25 ár. Launin fimmfalt upp, fasteignaverðið sexfalt upp. Á sama tíma hefur verðlag einungis hækkað þrefalt. Á heildina litið hefur eiginfjárstaða heimila því hækkað mjög mikið þennan aldarfjórðung.

Nú horfir þó svo við að atvinnuleysi muni aukast enn um sinn og þá gæti reynst erfitt fyrir mörg heimili, eins og hv. þingmaður vék að, að standa undir skuldbindingum sínum, jafnvel óháð verðbólgu. Viðskiptabankarnir hafa brugðist við þessari þróun með því að bjóða frystingu afborgana útlána tímabundið hjá þeim einstaklingum sem verða fyrir áhrifum af þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Í júníbyrjun höfðu ríflega 3.000 einstaklingar fengið slíkt greiðsluhlé.

Ef við horfum skemmra aftur í tímann þá var verðbólga frá desember sl. og fram í apríl 2020 undir markmiði en hún mælist núna, eins og hv. þingmaður vék að, í kringum 2,6%. Líkt og raunin var haustið 2018 hefur gengislækkunin frá því í lok febrúar í ár ekki leitt til þess að verðbólgan hafi fjarlægst markmiðið verulega. Í þetta skipti hjálpar lækkun olíuverðs einnig til. Hvorki Seðlabankinn, aðrir spáaðilar né markaðsaðilar gera ráð fyrir að verðbólga verði umfram verðbólgumarkmið á næstu árum. Þetta held ég að sé aðalatriði máls. Enginn gerir ráð fyrir því að verðbólgan fari aftur af stað. En að sjálfsögðu ber okkur að fylgjast vel með og það er mikilvægt, eins og hv. þingmaður er að gera hér, að halda mönnum við efnið.

Ég verð einnig að nefna að markaður með íbúðalán hefur gjörbreyst undanfarin ár. Óverðtryggðir vextir eru nú í mörgum tilfellum aðeins um 4% en í aðdraganda fjármálakreppunnar voru verðtryggðir útlánavextir viðskiptabankanna um 5–6% en eru nú 2–3%. Þessir lágu vextir skila sér ekki aðeins í lægri greiðslubyrði heldur gera þeir óverðtryggð lán að mögulegum valkosti fyrir mun fleiri heimili. Þeir sem vilja forðast mögulegar hækkanir höfuðstóls geta því tekið óverðtryggð lán.

Ég get ekki alveg svarað því sem hv. þingmaður spyr mig hvort óverðtryggðu lánin muni bara ryðja hinum til hliðar. Ég held að það sé líklegt að fyrir tekjulægstu einstaklingana sé hin lága greiðslubyrði verðtryggðu lánanna, sem eru með jafngreiðslufyrirkomulagið, alltaf kostur sem verði litið til. En hlutfall óverðtryggðra lána hefur tvöfaldast á einungis þremur árum og þau eru nú orðin 30% af öllum húsnæðislánum til heimila. Ég verð að segja eins og er að maður hefði varla þorað að spá þessu. Þetta er ótrúlega mikil breyting á húsnæðislánamarkaðnum.

Ríkisstjórnin mun áfram leggja mikla áherslu á að halda verðbólgu í skefjum og við berum öll sameiginlega ábyrgð á því að það takist. Mjög mikilvægur liður í því er að koma fram með trúverðuga efnahagsstefnu til framtíðar sem bregst við þessum nýju aðstæðum sem við horfum upp á. (Forseti hringir.) Mistakist okkur það þá mun það á endanum að mínu áliti birtast okkur í gengi gjaldmiðilsins sem getur smitað út í verðbólgu. En ég hef trú á verkefninu.