150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og vil aðeins ræða við hann kostnað ríkissjóðs vegna borgarlínuverkefnis sem hv. þingmaður var að ræða um. Verkfræðistofan Mannvit hefur lagt fram mat á stofnkostnaði við innviði í borgarlínu og er áætlaður kostnaður um 1,1–1,15 milljarðar kr. á hvern kílómetra á verðlagi í janúar 2017, það hefur að sjálfsögðu hækkað. Kostnaður við heildarmatið getur numið á bilinu 63–70 milljörðum kr. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðun á því hver eigi að greiða þetta 7 milljarða frávik, frá 63 og upp í 70.

Mig langar að koma inn á eitt varðandi Keldnalandið. Á Keldnalandinu, sem er í eigu ríkisins, eru stofnanir á vegum ríkisins. Þar er rannsóknarstarfsemi á vegum ríkisins, húsnæði og annað slíkt. Þetta þarf væntanlega allt að flytja í burtu og flytja á nýjan stað og því fylgir nýbyggingarkostnaður. Því fylgir flutningskostnaður. Því fylgir kostnaður vegna lóðaréttinda, kostnaður ríkisins af því að kaupa eða leigja land, og þá af Reykjavíkurborg eða einhverjum af hinum sveitarfélögunum. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér, hver greiðir þennan kostnað? Ríkissjóður leggur þetta land til, en á því eru mannvirki sem ríkið þarf náttúrlega að færa. Á þetta að skiptast miðað við eignarhluta í félaginu eða er eðlilegra að meðeigendur ríkisins greiði þennan kostnað?

Ég bið hv. þingmann að koma aðeins inn á þessa þætti.