150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Jú, spyrjum okkur bara: Hvaða vextir eru á lánum sem einkaaðilar taka til framkvæmda í dag? Ég yrði stórkostlega hissa ef þeir væru lægri en þeir vextir sem ríkissjóður getur fengið. Ríkissjóður getur tekið lán á mjög lágum vöxtum. Og hver borgar fyrir það? Jú, á endanum eru það alltaf landsmenn sem borga fyrir vegina sem þeir nota, með einum eða öðrum hætti. Og ofan á það eru ekki bara vextir af lánum sem einkaaðilar fá, þeir hafa líka ávöxtunarkröfu á það fjármagn sem þeir hafa. Í frumvarpi ráðherra þar sem hann ætlar að taka sex verkefni út úr samgönguáætlun — ég man ekki í svipinn hvernig það er orðað nákvæmlega — er það svigrúm galopið sem ráðherra gæti síðan sæst á sem ákjósanlega ávöxtun á fé þeirra einkaaðila sem koma að verkefninu. Þannig að ef krafa verður um rökstuðning, og ráðherrarnir þurfa þá að rökstyðja það, þá ég get ekki með neinum hætti séð hvers vegna það kæmi betur út fjárhagslega fyrir almenning, þá sem þurfa að nota vegina.