150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir svarið. Ég hjó eftir einu í ræðu hans, hann talaði um að eitt af forgangsatriðunum í þessu væri öryggi á vegum. Ég spyr: Ef við ætlum að forgangsraða í sambandi við öryggi, hver er mesta hættan, ef við tökum vegakerfið, þjóðveg nr. 1? Það eru einbreiðar brýr. Þær eru enn þá 36, þeim á að fækka um 8 þannig að þær verði 28. Ef við værum að hugsa um öryggi væri það númer eitt, tvö og þrjú að taka þetta allt út, gera úttekt á öllum þessum einbreiðu brúm og taka þær í burtu. Þá værum við virkilega að hugsa um öryggi borgaranna. Einbreiðar brýr eru yfirleitt ekki nema fjórir metrar eða mjórri, auk þess að minnka þarf ökuhraða niður í 50 km á klukkustund, fyrir utan svo það að þetta eru stórhættulegar aðstæður fyrir erlenda ferðamenn vegna þess að þeir þekkja ekki til þeirra.