150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:45]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem gleymist einmitt svo oft er að reikna með kostnaðinum fram í tímann, kostnaðinum við viðhald og vetrarþjónustu. Við sjáum það sérstaklega eftir jafn þungan vetur og var nú að það kostar fullt af peningum að halda vegunum opnum. Því miður er staðan sú að í einhverjum tilfellum velur Vegagerðin í sparnaðarskyni að opna kannski hægar, eða að geyma það að opna frekar en að þurfa að borga yfirvinnu og annað slíkt. Ég virði það auðvitað við þá sem reka Vegagerðina af því það getur ekki verið auðvelt að fá ekki nægjanlegt fjármagn til að halda opnu og þetta geta ekki verið auðveldar ákvarðanir. Þó að ég sem íbúi verði alltaf jafn fúl og pirruð þegar ég kemst ekki leiðar minnar þá sýni ég samt skilning á því að þetta er væntanlega erfið ákvörðun og þess vegna er ég ekki að skamma þá heldur í raun okkur sem erum fjárveitingavaldið fyrir að gefa þeim ekki nægt fjármagn til að halda vegunum opnum.

En það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á í spurningunni varðandi jarðgöngin og vetrarþjónustuna að við þurfum að reikna út heildarpakkann. Þar er líka þessi samfélagslegi kostnaður, auk viðhaldsins og vetrarþjónustunnar, sem felst í lengri vegalengdum, auknu viðhaldi bíla og aukinni notkun olíu sem vonandi verður bráðum skipt út fyrir rafmagn, metan og vetni í auknum mæli. En það kostar allt líka og með styttingu vega og með öruggari vegum náum við líka samfélagslega kostnaðinum niður.