150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:52]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er ekki ókunnug efnahagsmálum sjálf og leyfi ég mér að nefna að hún er fyrsta konan sem gegnir embætti fjármálaráðherra á Íslandi. Við þekkjum mjög þekktar og kunnar hagfræðikenningar sem komu kannski ekki síst fram eftir heimskreppuna miklu og John Maynard Keynes, síðar lávarður, setti þær fram í sínu stórmerka riti 1936. Þar er náttúrlega boðað að það sé góður tími til að ráðast í fjárfestingar og aukin útgjöld ríkisins þegar menn eru í niðursveiflu. En hv. þingmaður spurði hvort ekki hefði verið ástæða til að nota uppsveifluna á því tímabili sem hún tilgreindi. Jú, jú, það er náttúrlega hægt að rökstyðja góðar framkvæmdir á öllum tímum. Það er hægt. Ég er ekkert í neinni sérstakri aðstöðu til að meta hvort akkúrat þetta árabil, 2013–2016 held ég að hafi verið, sé sá tími þar sem menn misstu af strætó. Eins og ég gat um í ræðu minni erum við að tala um orsök þess að stofnbrautirnar hafa ekki fengið nægilegt vægi. Þær eru margþættar og ég rakti það m.a. til hrunsins sem var náttúrlega óviðráðanlegt og allt saman.

Hv. þingmaður nefndi umhverfismálin við mig og (Forseti hringir.) ég vil bara almennt lýsa því að ég er mjög fylgjandi því að menn gæti mjög vel að þeim. (Forseti hringir.) Nú eru náttúrlega í gangi mikil orkuskipti yfir í rafmagn (Forseti hringir.) og svo eigum við náttúrlega allt þetta metan sem við getum notað.