150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:58]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að taka við þar sem hv. þingmaður lauk máli sínu í sambandi við borgarlínu. Þó að ég ætli ekki að ræða það fyrirbæri sérstaklega hefur mér ekki fundist að búnir hafi verið til hvatar sem hægt er að fara í áður en ráðist er í svo stóra framkvæmd. Mig langar í þessu sambandi að nefna strætó hér í höfuðborginni sérstaklega, af því að nú hef ég viðmið við strætó á Akureyri sem kostar ekki krónu. Ég hef stundum velt þeirri hugmynd upp hvort það gæti gagnast að bjóða frítt í strætó aðra leiðina, niður í borgarmiðjuna á ákveðnum tíma að morgni. Svo mætti hafa aftur frítt í strætó frá miðborginni og út í hverfin á ákveðnum tíma seinni partinn. Ég segi þetta því að það gæti verið áhugavert að athuga hvort það myndi laða fólk í vagna. Ég veit að það hefur vissulega komið fram fyrr í umræðunni, við höfum rætt þetta mál töluvert, að þetta snúist um tíðni vagnanna. Ég held að það sé töluvert mikið til í því. Maður vill gjarnan geta gengið út á næstu stoppistöð og það komi þangað vagn eftir nokkrar mínútur, sérstaklega ef veðrið er ekki gott. Menn gætu freistast til að fara í fjölskyldubíl í staðinn.

Það sem ég vildi aðallega ræða hér er samgönguáætlunin, bæði til styttri tíma og svo til lengri tíma litið. Þetta snýst nefnilega um landið sem heild og það þýðir að við þurfum að reyna að sjá til þess að vænlegt sé að búa þar sem fólk kýs að vera. Þar gegna samgöngur miklu og mikilvægu hlutverki, bæði vegirnir og svo auðvitað flugið og ferjur. Það er svo merkilegt að bara rétt um daginn var ákveðið að hafa frítt í ferjuna sem siglir til Hríseyjar. Þó skilst mér að það séu ekki stóru fjármunirnir sem liggi í því. Í mínum huga er það dæmi um almenningssamgöngur sem hefði mátt hugsa um að hafa frítt í yfirleitt. Ef við hugsum um þá radíushugsun sem stundum er talað um í sambandi við hin svokölluðu skosku leið ætti hún ekki bara að taka til flugsamgangna heldur mætti hugsa sér að hún tæki til fleiri samgöngumöguleika.

Ég skoðaði nokkrar umsagnir í sambandi við þetta mál og rakst á umsögn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Þeir sem skrifa umsögnina byrja á því að fagna góðri framtíðarsýn sem birtist í samgönguáætlun 2020–2034 og tala um að þar birtist ákveðinn framtíðarstefna í byggðamálum og tiltaka almenningssamgöngur á landi, í lofti og á legi og að þær séu mikilvægar fyrir land eins og Ísland. Einnig er fjallað um hversu mikilvægur Reykjavíkurflugvöllur er.

Ég hjó eftir því að í umræðunni fyrr í dag var talað um að það gæti verið áhugavert að velta fyrir sér hvernig við gætum breytt flugleiðum þannig að miðjan hverfist ekki aðeins um Reykjavíkurflugvöll. Ég flutti einhvern tímann ræðu hér þar sem ég tiltók vegalengdir á milli ákveðinna staða. Vegalengdin milli Akureyrar og Egilsstaða er býsna löng og það er í raun ekkert sem mælir gegn því að ég gæti tekið flug frá Akureyri og til Egilsstaða eða þá beint frá Egilsstöðum til Keflavíkur, ef því er að skipta, nú eða til Ísafjarðar. Að það þurfi ekki alltaf að millilenda í Reykjavík með tilheyrandi bið. Við vitum að flugið milli þessara stærstu byggðakjarna, sem eru okkur öllum þó svo mikilvægir, er mjög stopult núna.

En það þarf vissulega að byggja upp Keflavíkurflugvöll. Ég ætla ekki að vera á móti því en mér finnst það einhvern veginn vera allt annar hlutur. Við þurfum að styrkja flugið um allt land, vissulega stóru flugvellina en líka þessa litlu velli svokölluðu. Þar vil ég ræða sérstaklega öryggisþáttinn sem felst í því að geta lent sjúkraflugi þar sem á því þarf að halda. Þess vegna eru litlu flugvellirnir svo mikilvægir. Það þarf í raun að skilgreina flug sem almenningssamgöngur. Það þarf að gera þannig að það sé ekki bara átaksverkefni sem mun líða undir lok heldur þarf að festa það í sessi og skilgreina það hreinlega sem almenningssamgöngur. Við ættum að horfa á alla þessa hluti samhliða, sem sagt samgöngur á vegum, í lofti og á sjó.

Ef við förum aftur í umsögnina frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar þá er þessi langa áætlun lofsömuð, ef við getum kallað það svo. Hins vegar eru þau frekar ósátt við aðgerðaáætlunina, þ.e. þessa styttri áætlun frá 2020–2024. Atvinnuþróunarfélagið bendir á að framtíðarsýnin sem þau lofsungu rétt áður og markmiðin sé ekki að finna í þessari stuttu áætlun. Ef ég gríp niður í umsögnina, með leyfi forseta:

„Þegar aðgerðaáætlun samgönguáætlunar 2020–2024 er skoðuð kemur hins vegar í jós að sú framtíðarsýn og markmið sem upp eru talin í samgönguáætlun fá ekki fjármagn næstu fimm árin. Hér fara ekki saman orð og efndir og góð áætlun missir marks. Almennt er hægt að fullyrða að Norðurland eystra beri skarðan hlut frá borði við skiptingu fjármagns milli landshluta.“

Þetta eru nokkuð stór orð en þegar ég hef lesið fleiri umsagnir mun ég væntanlega rekast á fleiri dæmi um slíkt misræmi, ef ég get talað um það þannig, þegar ég horfi á aðra landshluta. Það getur vel verið að það sé ofsalega auðvelt að hafa fallega framtíðarsýn en þegar maður setur niður fyrir sig hvernig á að standa að þeirri framtíðarsýn, lið fyrir lið, þá er það í raun ekki raunhæft. Það er það eina sem mér dettur í hug ef ég reyni að sjá þetta fyrir mér í einhverju samhengi. Það kemur líka fram hjá atvinnuþróunarfélaginu að Akureyrarflugvöllur skipti miklu máli. Mig langar að nefna Egilsstaðaflugvöll líka og flugvöllinn á Hornafirði. Ég get nefnt flugvöllurinn á Sauðárkróki ef út í það er farið. Þar er eftir miklu að slægjast og ég verð að taka það fyrir í næstu ræðu.