150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum samgönguáætlanir sem eru stefnumótandi plögg sem við þekkjum öll að eru svo endurskoðuð reglulega. Mig langar að tala um tvennt í þessari ræðu. Í fyrsta lagi vil ég aðeins ræða upplýsingar varðandi borgarlínuverkefnið og í öðru lagi almennt um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið fram í greinum í blöðum eða vefritum — og það sem ég ætla að vitna hér í hefur m.a. verið skrifað á Kjarnanum og Viðskiptablaðinu. Kannski hafa ekki fleiri rifjað þau skrif upp hér. Við erum ekki fyrsta landið eða fyrsta höfuðborgarsvæðið sem er að reyna að leysa þessi almenningssamgöngumál og höfum svo sem mörg hver nýtt okkur almenningssamgöngur erlendis og séð hvernig menn gera þetta þar. Auðvitað eru misjafnar útfærslur á þessu og mismunandi kostnaður og slíkt.

Í dæmum sem hafa verið tekin í áðurnefndum vefritum er m.a. fjallað um verkefni í Noregi, það sem þeir kalla á norsku Bussveien — strætóleiðin eða eitthvað slíkt, borgarlína, ef menn vilja nota fína orðið. Þá er alla vega um að ræða sérrými fyrir hraðvagna, einir 50 km ef ég tók rétt eftir, og 2014 var, samkvæmt þessari grein í Viðskiptablaðinu, áætlað að kostnaður við verkefnið væri u.þ.b. 50 milljarðar kr. En 2019 — það er ár síðan, vorið 2019 líklega — var þessi kostnaður orðinn 206 milljarðar, fór sem sagt úr 50 milljörðum í 206 milljarða, þ.e. áætlaður kostnaður við þessa lagningu. Þar er komið inn á að í áætlun varðandi borgarlínu sé gert ráð fyrir að kílómetrinn kosti 1,2 milljarða, en sá kostnaður var um 3–4 milljarðar úti í Noregi miðað við þessar upplýsingar. Þar af leiðandi held ég að það sé mjög mikilvægt að áður en þessi skref verða stigin á Alþingi, sem binda ríkissjóð á næstu árum, verði upplýsingarnar sem liggja fyrir nákvæmari en við höfum í dag. Menn geta komið hér og vitnað í einhverjar skýrslur og slíkt en það eru vitanlega, eins og bent hefur verið á, aðrar skýrslur sem segja aðra hluti. Það er því mikilvægt að menn setjist niður og búi til ramma utan um allt verkefnið en skilji ekki eftir opin atriði eða opnar leiðir sem á eftir að túlka og senda bakreikninga út á og þá er ég að horfa á ríkissjóð. Það er ábyrgð okkar hér inni, alþingismanna, að passa hag ríkissjóðs, að passa baukinn hér. Við eigum að sjá til þess að það sé eins lítið af óvissu og hægt er þegar kemur að svona stórum og miklum verkefnum varðandi ríkissjóð, og ekki bara í stórum og miklum verkefnum heldur bara yfirleitt. Við eigum að sjálfsögðu að gera það almennt, en ekki síst þegar um er að ræða risaverkefni eins og þetta.

Þá ætla ég aðeins að koma inn á hitt sem mig langar að nefna og það er bara almennt um samgöngur og þau plön sem hafa verið á höfuðborgarsvæðinu. Hér fyrr í kvöld var minnst á að það var formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem nefndi að borgin hefði á sínum tíma í raun gefið eftir ákveðið framkvæmdafé, nokkra milljarða króna, og fengið aura í staðinn fyrir strætókerfið. Þar af leiðandi hafi verkefnið setið á hakanum á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst það ábyrgðarhluti að gera slíkt í ljósi þess að vegaframkvæmdir hafa setið eftir á þessu svæði hér. Þegar maður er að flækjast út úr borginni, reyna að komast norður í land eða annað, veltir maður fyrir sér öllum þeim tíma sem það tekur að keyra úr miðbænum og upp í Borgarfjörð eða bara upp á Kjalarnes. Það er vegna þess að gatnakerfið annar ekki allri umferðinni með góðu móti. Þá fer maður að velta fyrir sér: Hvers konar metnaðarleysi er það hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að horfa ekki til þess að þær aðstæður geta komið upp hér á horninu að koma þurfi fólki burtu, náttúruhamfarir eða eitthvað slíkt? Við sjáum að Grímsvötn eru að vakna núna. Þó að það sé allt annars staðar á landinu getur slíkt alveg eins gerst á Reykjanesinu eða uppi Bláfjöllum og þar í kring, í Henglinum. Allt þetta getur gert að verkum að rýma þurfi þetta svæði. Það verður ekki gert með borgarlínu, það er alveg ljóst. Það verður ekki gert með því að senda alla í þessa hraðvagna sem enda einhvers staðar uppi í Mosfellsbæ. Það þarf að vera hægt að koma fólki í burtu mun hraðar. Þess vegna skilur maður ekki, hæstv. forseti, að jafn mikilvægt verkefni og Sundabrautin skuli hafa verið látin liggja eins og hún skipti ekki máli. Það er fyrst núna sem verið er að horfa til þess að fara að gera eitthvert verulegt átak — og ekki verulegt átak, það er verið að skoða hvað eigi að gera með Sundabrautina. Það er vegna þess að borgaryfirvöld eru hreinlega neydd til þess í samningum við ríkisvaldið.

Það er mikill ábyrgðarhluti sem er í fanginu á stjórnendum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst Reykjavíkurborgar, að hafa ekki hugsað fyrir því hvernig íbúarnir geta komist út úr borginni komi til þess sem við vonum auðvitað að gerist ekki. En við þurfum að gera ráð fyrir því. Einhverjir höfðu gert ráð fyrir því að upp gæti komið faraldur eins og þessi kórónuveira en menn voru ekki undir það búnir. Við búum á eldfjallaeyju og við vitum að náttúruhamfarir verða með reglulegu millibili, við vitum að jarðskjálftar verða og eldgos og slíkt. Við hljótum því að þurfa að vera viðbúin öllum mögulegum aðstæðum þegar að því kemur, en það hefur setið á hakanum, því hefur ekki verið sinnt. Að sjálfsögðu er um að kenna þeirri stefnu sem höfuðborgin hefur haft, fyrst og fremst höfuðborgin, undanfarin ár, þ.e. að leggja áherslu á að reyna að byggja upp þetta strætókerfi með mjög litlum árangri; það eru mjög fáir sem nota það í dag, aðeins aukning á milli ára sem er að sjálfsögðu jákvætt, því að við viljum að sjálfsgöðu líka að til sé almenningssamgöngukerfi. En á sama tíma er annað látið sitja á hakanum og það er mikil ábyrgð sem hvílir á þeim sem taka ákvörðun um slíkt.

Maður hefur fylgst með fréttum af því að mögulega sé verið að skipuleggja framkvæmdir eða einhvers konar byggð, ég held að það sé byrjað á því, í einni af þeim veglínum sem hugsaðar hafa verið fyrir Sundabrautina, þegar komið er yfir sundið í raun. Það er ekki eitt heldur allt sem hefur verið gert til þess að þessi framkvæmd verði slegin af. Á sama tíma þekkjum við sem höfum verið að keyra um höfuðborgarsvæðið vel umferðarteppur og stopp sem hefði verið hægt að leysa með mislægum gatnamótum, með meiri ljósastýringu o.s.frv. Öllu því var afsalað. Menn vildu frekar fá milljarða, á tíu ára tímabili ef ég man rétt, inn í strætó sem reyndist svo ekki skila því sem vænst hafði verið. Það er vitanlega um leið mikil ábyrgð að ætla að fara í svona gríðarlega mikla framkvæmd, eins og svokölluð borgarlína og það sem henni fylgir er, án þess að gera sér alveg grein fyrir endanlegum kostnaði. Við getum nokkurn veginn sagt okkur það að fari svona stórt verkefni af stað er mjög erfitt að fara til baka úr því. Verkefnið mun á sama tíma draga obbann, ef ekki nánast allt, af þeim fjármunum sem eru til skiptanna, sem geta farið í samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, til sín nema að mun skýrar sé kveðið á um réttindi og skyldur allra aðila og slíkt í þeim frumvörpum sem liggja fyrir.

Herra forseti. Það er eðlilegt að svona stór mál sem eru rædd saman taki tíma í umræðunum. Þetta eru tvær samgönguáætlanir, önnur til 2024 og hin 2034. Í því felst mikil stefnumörkun af hálfu ríkisvaldsins og því er mjög mikilvægt að öllum steinum sé velt við og gefinn góður tími í það. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að áætlun sem þessi er endurskoðuð reglulega en engu að síður er verið að setja markið fram með ákveðnum hætti og það er það sem mikilvægt er fyrir okkur að fjalla um hér.