150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:18]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Þegar við fjöllum um samgönguáætlun og umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu vegast á annars vegar borgarlína, sem meiri hluti borgarstjórnar, borgaryfirvöld, hafa sett í forgang, og hins vegar Sundabraut sem hefur verið sett til hliðar. Þetta þýðir að ætlunin er í raun og veru að framkvæmdir við borgarlínu séu á kostnað Sundabrautar, ekki síst ef það á að halda til streitu þeim áformum sem leiða af sér að kostnaður við borgarlínu fer upp úr öllu valdi og hleypur á tugum eða hundruðum milljarða. Síðasta kostnaðarmat sem maður veit ekki hversu vel grundað er er upp á 80 milljarða. Miðað við reynslu af framúrakstri við framkvæmdir má kannski gera ráð fyrir því að þetta séu a.m.k. vel á annað hundrað milljarðar. Ef það á að halda þeim áformum til streitu, gagnstætt til að mynda ráðleggingum umferðarverkfræðings sem ég hef vitnað til í þessari umræðu, sem telur að hægt sé að ná markmiðum um bættar almenningssamgöngur með útgjöldum upp á nokkra milljarða, er borgarlína með mjög áberandi hætti gerð á kostnað Sundabrautar. Sundabraut er alvöruframkvæmd. Hún þjónar raunhæfum markmiðum og er fallin til þess að auka öryggið. Rétt eins og önnur framkvæmd sem hefur ekki fengið nægilega athygli hér í umræðunni og það er að gera Miklubrautina miklu greiðfærari þannig að hægt sé að keyra ofan úr Ártúnsbrekku og vestur á Hagatorg hindrunarlaust og án þess að þurfa að nema staðar. Það væri marktæk aðgerð sem væri fallin til þess að greiða mjög umferð um borgina sem liggur frá austri til vesturs eins og menn þekkja og myndi auka mjög öryggi borgarbúa rétt eins og Sundabrautin.

Herra forseti. Ég verð að segja að það eru þættir í umræðu um samgöngumál þar sem ég tel að ekki sé gætt nægjanlegs aga og skorti á að umræða sé nægilega vönduð. Af hverju erum við að tala um borgarlínu án þess að það liggi fyrir haldbærar tillögur um það mál? Það fer eftir því hver tjáir sig um þetta mál af hálfu fylgismanna þess hvað þetta fyrirbæri er þannig að maður er engu nær. Einn daginn er manni sagt að þetta séu rauðir dreglar fyrir strætó. Það er kannski besta lýsingin sem maður hefur heyrt. Með öðrum orðum, aðgerðir til þess að greiða för strætó um borgina.

Annað dæmi af sama toga er umræða um hugsanlegan flugvöll í Hvassahrauni. Hvað á þetta að fyrirstilla, herra forseti? Það liggur fyrir að þarna eru vindar og veður sem henta ekki fyrir flugumferð. Í annan stað er þetta náttúrlega á eldvirku svæði þannig að ég tel að það væri leitun að þeim náttúruvísindamanni eða jarðfræðingi sem myndi mæla með þeirri staðsetningu þegar af þeirri ástæðu. Þriðja ástæðan er að hraunin á þessu svæði eru forkunnarfögur og það væru mjög alvarleg umhverfisspjöll að ætla sér að fara að leggja þau undir flugvöll.

Ég hvet til þess, herra forseti, að umræðan verði miklu agaðri og sé byggð á raunhæfum áætlunum og greiningum varðandi kostnað, arðsemi, rekstur og aðra slíka þætti.