150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:55]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Þjóðvegakerfinu á Íslandi er skipt upp í fjóra undirflokka samkvæmt vegalögum, þ.e. stofnvegi, tengivegi, héraðsvegi og landsvegi. Stofnvegir eru þeirra mikilvægastir enda er hlutverk stofnvega, samkvæmt a-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga, m.a. að tengja saman byggðir landsins. Stofnvegir landsins eru þannig meginsamgönguleiðir milli þéttbýlisstaða og landsvæða sem og meginflutningskerfi landsins. Tengivegir tengja svo helstu áfangastaði við stofnveganetið.

Af stofnvegum á Vesturlandi er einungis Skógarstrandarvegur án bundins slitlags. Þegar litið er til landsins alls og vegurinn borinn saman við sambærilega vegi er Skógarstrandarvegur annar af tveimur stofnvegum landsins þar sem ekki er bundið slitlag og þar sem hönnun og framkvæmdir eru ekki hafnar með það að markmiði.

Í fylgiskjali með umsögn Stykkishólmsbæjar má sjá glöggt að Skógarstrandarvegur er einn af tveimur stofnvegum landsins, hinn er á Ströndum, án bundins slitlags þar sem ekki standa framkvæmdir yfir eða eru fyrirsjáanlegar innan skamms tíma.

Árið 2007 var Skógarstrandarvegur í samgönguáætlun og hefði hún haldið væru endurbætur á veginum hafnar. Hann var hins vegar tekin af áætlun og stendur eftir krókóttur, mjór og grýttur, ríkur af einbreiðum brúm, blindhæðum og öðrum tilheyrandi hættum. Ljóst er að ráðast þarf strax í að klára hönnun vegarins um Skógarströnd. Búið er að vinna frumdrög að hönnun fyrir veginn frá Vestfjarðavegi að Heydalsvegamótum. Ráðast þarf því strax í forhönnun þess vegarkafla þannig að hægt sé að klára verkhönnun vegarins. Lítil sem engin vinna hefur verið unnin frá Stykkishólmsvegi að Narfeyri, þó var til skoðunar á sínum tíma stytting á þeirri leið um 7 km með brú yfir Álftafjörð. Nauðsynlegt er að hefjast handa við frumdrög þessa vegarkafla, forhönnun og í framhaldinu verkhönnun.

Í athugasemdum við fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um samgönguáætlun kemur fram að uppbygging grunnnetsins, viðhald þess og rekstur er forgangsatriði við ráðstöfun fjármuna vegna samgönguáætlunar. Samkvæmt skilgreiningu er grunnnet vega stofnvegakerfið. Miðað er við að allir byggðakjarnar með u.þ.b. 100 íbúa eða fleiri tengist grunnneti á landi. Einnig er það látið ná til þeirra staða sem gert er ráð fyrir að verði hvað mikilvægastir fyrir fiskveiðar, ferðaþjónustu og flutninga að og frá landinu. Grunnnetið er samfellt og liggur um þéttbýlisstaði þegar svo háttar til. Helstu samgönguæðar á stærstu þéttbýlissvæðum teljast til netsins. Í samgönguáætlun kemur fram að í grunnneti er miðað við að stofnvegir séu byggðir upp með fullu burðarþoli og bundnu slitlagi.

Í fyrirliggjandi samgönguáætlun kemur fram varðandi Skógarstrandarveg að lagt er til að unnið verði við lagfæringar á ýmsum stöðum á veginum en kostnaður sé óviss. Þessi forgangsröðun sem kemur fram í samgönguáætlun er óásættanleg miðað við að Skógarstrandarvegur er hluti grunnkerfis samkvæmt samgönguáætlun. Sér í lagi stingur það í stúf við fyrirliggjandi samgönguáætlun að leggja ekki ríkari áherslu á Skógarstrandarveg þar sem höfuðáhersla er lögð á það í fyrirliggjandi samgönguáætlun að ná markmiðum hennar með því að helstu stofnvegir og tenging þeirra við þéttbýli með fleiri en 100 íbúa verði með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli. Þar sem Skógarstrandarvegur er hluti grunnetsins samkvæmt samgönguáætlun mætti ætla að hann væri forgangsatriði við ráðstöfun fjármuna í samgönguáætlun. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég óska eftir að verða settur á ný á mælendaskrá.