150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Þegar frá var horfið var ég að ljúka við fyrstu yfirferð mína um almenningssamgöngukafla samgönguáætlananna og hafði talað dálítið um borgarlínu. Í ljósi þess að sú umræða fór að miklu leyti fram að næturlagi tel ég rétt að ítreka aðeins nokkra meginpunkta mína úr þeirri umræðu, fyrir þá sem kunna hafa verið sofandi þegar umræðan fór fram, til þess að geta svo í framhaldi af því fært mig yfir í næstu kafla sem tengjast borgarlínunni og snúa að flugvellinum í Reykjavík, flugvellinum í Vatnsmýri.

Ástæðurnar fyrir því að ég hef verulegar efasemdir um borgarlínuna, og það hvernig lagt er upp með það verkefni, eru margar. Í fyrsta lagi er þetta verkefni sem ber öll einkenni innviðaverkefna sem koma sveitarfélögum í veruleg fjárhagsleg vandræði til mjög langs tíma. Ég nefndi erlend dæmi um slíkt, sambærileg verkefni, en það er mjög margt í þessu sem æpir á mann, hvað það varðar, að hér sé verið að leggja af stað í ferð sem ekki sér fyrir endann á hvað varðar fjárútlát og ýmsan vandræðagang. Í raun er stórfurðulegt að hér á landi, og í þessari borg, Reykjavík, eins og hún er nú uppbyggð, skuli vera farið af stað með svo stórt verkefni með jafn litlum undirbúningi. Við heyrum meira að segja ráðherra lýsa því enn að það sé óljóst hvað borgarlínan sé. Þess heldur er það undarlegt að verið sé að setja jafn mikið fjármagn til jafn langs tíma í þetta verkefni og lagt er upp með hér.

En þá að verkefninu sjálfu og örstuttri samantekt um hvernig þetta er skipulagt. Menn mega eiga það hér í borg, þ.e. borgarstjórnarmeirihlutinn og samstarfsmenn þeirra, að þeir eru alveg ófeimnir við að útskýra hvað þeir ætla sér með borgarlínu þó að ráðherrar kannist ekki alveg við að það liggi fyrir. Eitt af markmiðunum er einfaldlega að þrengja að umferðinni, þrengja að annarri umferð, taka eina akrein í hvora átt undir borgarlínuna þannig að þrengt sé að annarri umferð og fólk neyðist til að nýta sér borgarlínuna. Þetta er með öðrum orðum neyslustýring og mjög sérkennilegt, herra forseti, að sjá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn beita sér fyrir jafnt grófri neyslustýringu og í þessu felst; ein akrein er tekin í hvora átt af almennri umferð undir borgarlínu. Á sama tíma stendur til að viðhalda strætisvagnakerfinu. Það er nauðsynlegt með borgarlínunni vegna þess að hún fer ekki um alla borg. Það verður að viðhalda strætisvagnakerfinu í hverfunum til að skila fólkinu að borgarlínunni. Með öðrum orðum er hér verið að innleiða tvöfalt kerfi, tvöfalt strætókerfi, á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi reynslunnar af því hvernig gengið hefur með rekstur Strætós undanfarin ár og jafnvel áratugi hlýtur það að vekja spurningar um kostnað við að reka þetta tvöfalda kerfi. Borgarlínan sjálf verður auðvitað mjög dýr. Við sjáum það af reynslu annarra þjóða. En þegar svo bætist við annað strætókerfi, hver verður þá kostnaðurinn? Við vitum það ekki. Það liggur ekkert fyrir um áætlaðan rekstrarkostnað.

Við vitum að framkvæmdin verður dýr og ég held að flestir geri sér grein fyrir því að hún muni fara langt fram úr áætlunum, þó ekki væri nema vegna dæma að utan, þar sem sambærileg verkefni hafa öll orðið til mikilla vandræða og farið langt fram úr áætlunum. Og hér erum við að tala um Reykjavík sem eyddi hálfum milljarði króna í bragga. Við vitum að fjárfestingin verður miklu dýrari en ráð er fyrir gert, ég held að við getum slegið því föstu. En við vitum ekkert um rekstrarkostnaðinn til allrar framtíðar og þátt ríkisins í því. Vitið til, þegar þetta verður allt saman farið af stað verður ætlast til þess að ríkið haldi áfram að styðja verkefnið. Hér er verið að taka ákvörðun, til (Forseti hringir.) áratuga jafnvel, um endalaus (Forseti hringir.) fjárútlát í það að þrengja að umferð á höfuðborgarsvæðinu.