150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, það er þetta með hliðarveruleikann. Ég held að hv. þingmaður sé í þrettándu ræðu sinni. Samt finnst honum ég vera að reyna að koma í veg fyrir umræðu með því að eyða tveimur mínútum í að segja mína skoðun.

Virðulegur forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður sé búinn að afhjúpa sig sem sá lýðskrumari sem hann er. Hann segir bara við kjósendur um allt land: Vitið þið hvað? Mér er alveg sama um ykkur, ykkar vegi, ykkar vegabætur og ykkar samgöngur. Mér er alveg nákvæmlega sama. Ein blaðsíða af 30 í nefndaráliti fjallar um samgöngusáttmálann og ég ætla að fjalla um hana. Nei, fyrirgefðu, forseti, það er rétt. Hann hélt nokkrar ræður, ég veit ekki hvað þær voru margar, þar sem hann taldi upp heiti skosku eyjanna. Ég hvet kjósendur til að hlusta á þær af því að það hvað eyjar í Skotlandi heita skiptir öllu máli varðandi innanlandsflug á Íslandi af því við ætlum að taka upp svokallaða skoska leið.

Það er athyglisvert að sjá þessa forgangsröðun. Borgarlínan er til umræðu. Ég er mjög tilbúinn að ræða hana. En hún er til umræðu í næsta máli. Hv. þingmenn Miðflokksins eru með samgönguáætlun í gíslingu og eru með málþófi að reyna að koma í veg fyrir að Alþingi standi undir lögbundnu hlutverki sínu með því að setja landinu samgönguáætlun. Öðruvísi mér áður brá. Þingmenn Miðflokksins hafa hingað til gefið sig út fyrir að vilja uppbyggingu, koma störfum í gang, var það ekki þrístökk í þágu atvinnulífsins eða eitthvað annað ofstuðlunardæmi hér um daginn? En nei, í samgöngumálum vill hv. þingmaður og Miðflokkurinn allur stöðva allar framkvæmdir og segja við íbúa um allt land: Þið þurfið ekki á neinu að halda. Ég þarf að dilla sjálfum mér hér í pontu af því að ég þarf að tala gegn borgarlínunni. Skítt með ykkur, kjósendur mínir í Norðausturkjördæmi.