150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:37]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla mér að koma aðeins inn á hafnarmál í ræðu minni í ljósi þess að hafnir hafa um árabil legið óbættar hjá garði, ef svo má segja, og beðið eftir bæði viðhaldi og nýframkvæmdum. Af því að ég hef töluvert verið að þakka hv. samgöngunefnd fyrir góða vinnu í ræðum mínum langar mig að halda því áfram. Það er greinilegt í nefndaráliti meiri hluta samgöngunefndar um m.a. hafnarmál að þar hefur farið fram góð vinna miðað við framlagningu samgönguáætlunar nú í haust. Og með leyfi forseta langar mig að grípa aðeins niður í nefndarálitið í sambandi við hafnir og fyrirkomulag fjármögnunar og framkvæmda:

„Faxaflóahafnir, Kópavogshöfn, Hafnarfjarðarhöfn og Fjarðabyggðarhafnir eru fjárhagslega sjálfbærar. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. hafnalaga, nr. 61/2003, skal framlag ríkissjóðs ekki raska ótilhlýðilega samkeppni milli hafna samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með vísan til þessa njóta framangreindar hafnir ekki ríkisstyrkja. Því er ekki fjallað um þær í samgönguáætlun […] Aðrar hafnir njóta stuðnings Hafnabótasjóðs, þó þannig að framlag ríkisins raski ekki um of samkeppni milli hafna. Þær gegna fjölbreyttum hlutverkum þótt meginhlutverk flestra hafna helgist fiskveiðum.

Hafnabótasjóður er eign ríkisins og fer Vegagerðin með stjórn sjóðsins í umboði ráðherra. Um sjóðinn er fjallað í 26. gr. hafnalaga. Hafnabótasjóður fjármagnar framkvæmdir ríkisins samkvæmt samgönguáætlun sem samþykkt er á Alþingi. Sjóðnum er heimilt að starfrækja þróunardeild hafna sem ætlað er að styðja minni hafnir á landsbyggðinni sem eru mikilvægar fyrir byggðarlög og atvinnuuppbyggingu þeirra. Þá hefur sjóðurinn heimild til að bæta tjón á hafnarmannvirkjum sem uppfylla skilyrði hafnalaga fyrir ríkisstyrkjum, þ.m.t. tjón sem ekki fæst að fullu bætt með öðrum hætti.

Með tilkomu nýrra hafnalaga árið 2003 var hlutverki Hafnabótasjóðs breytt verulega. Hætt var að veita styrki úr sjóðnum á móti framlagi af fjárlögum, ásamt því að hætt var að veita lán úr sjóðnum. Hlutverk sjóðsins eftir breytingar var að takmarka tjónabætur við styrkhæf mannvirki samkvæmt lögunum. Gert var ráð fyrir að ríkissjóður legði sjóðnum til nægjanlegt fé til ráðstöfunar ef tjón yrði. Þannig átti breyttu hlutverki Hafnabótasjóðs að svipa til hlutverks Vegasjóðs, þ.e. að fjármagna framkvæmdir á samgönguáætlun.“

Á þessum tíma, árið 2003, hafa því verið gerðar töluverðar breytingar sem voru til bóta. Hér segir áfram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin telur þörf á nýrri og ítarlegri yfirsýn yfir viðhaldsþörf hafna og væntingar sveitarfélaganna um nýframkvæmdir. Áætlun Hafnabótasjóðs birtist eingöngu í framkvæmdaáætlun samgönguáætlunar til fimm ára en engin heildstæð stefna liggur fyrir í hafnamálum […] hafnaverkefni liggja fyrir sem hvorki eru í áætlunum Hafnabótasjóðs né getið um í endurskoðaðri samgönguáætlun. Nefna ber höfnina á Djúpavogi, sem þarf að stækka […] stækka verður Bíldudalshöfn til að efla fyrirtæki í kalkþörungavinnslu og laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum.“

Og svona mætti áfram lesa. Það er ánægjulegt að í meðförum nefndarinnar hefur þetta þróast í þá átt að hafnir víðast hvar úti á landi, sem eru frekar litlar og veikburða, fá betri (Forseti hringir.) athygli vegna aukinnar þarfar.