150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Ég var byrjaður að ræða um Akureyrarflugvöll og hafði farið yfir álit frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar sem sýndi að ekki fara saman orð og efndir hjá stjórnvöldum varðandi Akureyrarflugvöll, ekki frekar en svo margt annað í samgöngumálum, kannski innanlandsfluginu sérstaklega. Nú ætla ég aðeins að líta til álits sem Akureyrarbær skilaði vegna samgönguáætlunar en það hefst á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Uppbygging Akureyrarflugvallar er eitt mikilvægasta verkefnið í uppbyggingu samgöngumannvirkja á Norðurlandi, ef ekki fyrir landsbyggðina alla.“

Minnt er á að Akureyrarbær hafi fagnað samkomulagi samgönguráðherra og félagsmálaráðherra um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli sem skrifað var undir í lok síðasta árs. Svo er samkomulagið rakið en að því búnu gerðar ýmsar athugasemdir við eftirfylgnina. Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Akureyrarbær leggur ríka áherslu á að hugsað verði til framtíðar við þessa vinnu en ekki farið í lausnir sem munu aðeins leysa tímabundinn vanda og að fjármagn verði tryggt í samgönguáætlun til uppbyggingar.“

Þarna koma fram tvö mikilvæg atriði sem ég hef talsvert verið að ræða, annars vegar tilhneiging til að fara í skammtímalausnir og setja ekki fjármagn í innanlandsflug nema löngu eftir að það er orðið bráðnauðsynlegt, t.d. í viðhald mannvirkja eða flugbrauta, og svo segir líka að mikilvægt sé að fjármagn verði tryggt í samgönguáætluninni sem maður hefði einmitt haldið að myndi birtast í henni í ljósi allra yfirlýsinganna og þess samkomulags sem bæjarstjóri Akureyrar, fyrir hönd bæjarins, vísar í. En það vantar nefnilega og hér segir áfram í álitinu, með leyfi forseta:

„Þá leggur Akureyrarbær áherslu á að samhliða uppbyggingu flugstöðvar þarf að huga að uppbyggingu flughlaðs, sem er afar mikilvægt til þess að flugvöllurinn geti gegnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur. Þá hefur á Akureyri byggst upp fjölbreytt flugtengd starfsemi sem er orðin mjög aðþrengd og nauðsynlegt að flughlað verði klárað hið fyrsta svo að eðlileg uppbygging geti átt sér stað.“

Þetta flughlaðsmál er búið að velkjast í kerfinu lengi. Ég taldi að við hefðum á sínum tíma tekið ákvörðun um að farið yrði í að klára það en eins og með svo margt annað í samgöngumálunum, í tíð þessarar ríkisstjórnar sérstaklega, þá er skorið niður þar og sparað, ef sparnaður er rétta orðið, því að oft og tíðum eru menn að glata verðmætum fjárfestingartækifærum, eins og í tilviki Akureyrarflugvallar, fyrir byggðarlagið í tengslum við þessa fjölþættu starfsemi sem tengist fluginu. Það fær ekki notið sín vegna þess að verið er að skera niður og valda þar með í rauninni efnahagslegu tjóni frekar en sparnaði til lengri tíma litið. En áfram segir um málið í áliti Akureyrarbæjar, með leyfi forseta:

„Akureyrarbær bendir einnig á mikilvægi þess að fyrir hendi sé gervihnattaleiðsaga af bestu gerð fyrir öruggar flugsamgöngur. Staðan hér er sú að aðgangur að EGNOS leiðsögu er ótryggur og takmarkaður. Stjórnvöld þurfa að bæta úr þeim ágöllum og semja um örugga útbreiðslu merkjanna um allt land. Marka þarf skýra stefnu í samgönguáætlun sem heimilar ráðuneytum, Samgöngustofu og Isavia að raungera þau markmið. Fyrirséð er að EGNOS mun gegna lykilhlutverki …“ (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég hafði ekki einu sinni náð að klára að lesa þessa klausu. Ég vil biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.