150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:02]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstvirtur forseti. Ég hef verið á ferðalagi um landið í þessum ræðum mínum. Ég hef m.a. verið í Norðvesturkjördæmi, í mínu kjördæmi, og komið við á Snæfellsnesi. Stykkishólmsbær hefur sent inn mjög ítarlega umsögn, viðbótarumsögn, við samgönguáætlun. Þar er mikið fjallað um Skógarstrandarveg eins og kom fram í ræðu minni áðan, þegar ég vitnaði í umsögn frá sveitarstjórn Dalabyggðar, en sá vegur tengir saman þessa tvo landshluta, Dalabyggð og Snæfellsnes. Skógarstrandarvegur liggur þar á milli og er einn af tveimur stofnvegum landsins sem er malarvegur og hefur algjörlega legið óbættur hjá garði í áratugi. Vegurinn var kominn inn á framkvæmdaáætlun 2006 eða 2007 en svo skeði ekki neitt.

Mig langar aðeins að grípa niður í þessa umsögn frá Stykkishólmsbæ:

„Árið 2007 var Skógarstrandarvegur á samgönguáætlun og hefði hún haldið væru endurbætur á veginum hafnar. Hann var hins vegar tekinn af áætlun og eftir stendur krókóttur, mjór og grýttur vegur, ríkur af einbreiðum brúm, blindhæðum og öðrum tilheyrandi hættum. Ljóst er að strax þarf að ráðast í að klára hönnun vegarins um Skógarströnd (skilgreiningu, frumdrög að hönnun, forhönnun og verkhönnun). Búið er að vinna frumdrög að hönnun fyrir veginn frá Vestfjarðarvegi að Heydalsvegamótum. Ráðast þarf því strax í forhönnun þess vegkafla þannig að hægt sé að klára verkhönnun vegarins. Lítil sem engin vinna hefur verið unnin frá Stykkishólmsvegi að Narfeyri, þó var til skoðunar, á sínum tíma stytting á þeirri leið um 7 km með brú yfir Álftafjörð. Nauðsynlegt er að hefjast handa við frumdrög þess vegkafla, forhönnun og í framhaldinu verkhönnun.“

Sá kafli vegarins hefur algjörlega setið hjá eins og Skógarstrandarvegurinn enda er hann í raun hluti af þeim vegi og myndi brú yfir þann fjörð stytta leiðina um 7 km.

Mig langar að lesa áfram um ástandið á svæðinu vegna þess hve vegurinn er illa farinn:

„Ástand Skógarstrandarvegar hefur verið heftandi fyrir uppbyggingu á Skógarströnd, bæði hvað varðar búsetu og ferðaþjónustu, enda er vegurinn afar mikilvægur hvað varðar búsetu, vinnu- og skólasókn á svæðinu. Því til undirstrikunar má nefna að yfir vetrartímann er snjómokstur um veginn um Skógarströnd ekki nema tvo daga í viku, eða skv. F. reglu Vegagerðarinnar, með tilheyrandi áhrifum á skólasókn barna á svæðinu. Varðandi skólasókn er vísað til fyrirliggjandi umsagnar Dalabyggðar þar sem m.a. er lýst yfir miklum áhyggjum af vegamálum í tengslum við skóla- og fræðslumál.“

Beggja megin þessa vegar lýsa sveitarfélögin yfir miklum áhyggjum af því rofi sem er í samgöngum milli þessara svæða. Einnig er bent á það að umferð um þennan veg hefur aukist mjög vegna fjölgunar ferðamanna undanfarin ár. Ferðamenn sem ferðast um landið á bílaleigubílum gera sér ekki grein fyrir ástandi vegarins fyrr en þeir fara að keyra hann vegna þess að bílar eru þannig útbúnir í dag að það er ýtt á brottför og áfangastaður settur inn og þá sýnir tækið bara stystu leið. Leiðin um Skógarströnd er oftast stysta leiðin í kílómetrum talið á milli svæða á Vestfjörðum eða inni í Dölum og út á Snæfellsnes og þá leiðir kerfið bílana þennan krókótta veg og mikið er um slys og óhöpp á þessum vegi vegna þess að ekkert hefur verið gert fyrir hann í öll þessi ár.

Það má líka geta þess hér í lokin að sá sem hér stendur hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um hönnun á gagngerum lagfæringum á þessum vegi og vona ég að sú tillaga nái fram að ganga.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að vera settur á mælendaskrá á ný.