150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:00]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Nú er ég komin með í hendurnar íslenska skýrslu um skosku leiðina. Um er að ræða samstarfshóp atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar um innanlandsflug sem tók saman svör við spurningum sem hópurinn fékk í tengslum við skosku leiðina. Ég gef mér að þessi skýrsla sé gefin út í sambandi við málþing sem haldið var 4. október 2017 og þetta er ágætisplagg.

Ég ætla að byrja á því að lesa beint upp úr skýrslunni þar sem fjallað er um það í hverju skoska leiðin felst:

„Skoska leiðin ber heitið Air Discount Scheme (ADS) og var sett á fót af skoskum stjórnvöldum árið 2005. Áætlunin hefur verið framlengd nokkrum sinnum, nú síðast árið 2015 á grundvelli greinar nr. 51 í reglugerð Evrópusambandsins nr. 651/2014. Markmiðið með ADS er að auka aðgengi að flugþjónustu á viðráðanlegu verði frá jaðarbyggðum í Skotlandi. Með 50% afslætti af flugfargjöldum íbúa með heimilisfesti á skilgreindum svæðum stuðlar ADS að félagslegri þátttöku íbúa jaðarbyggða í borgarsamfélaginu.“

Vísað er á vefsíðu þar sem finna megi skýrslu frá skoskum stjórnvöldum. Það er ætlunin, samkvæmt skýrslunni, að á Íslandi verði innleidd áætlun sem byggir á þessari leið. Þeir hafa aðgang að henni sem eru með lögheimili á þeim skilgreindu landsvæðum sem falla undir stuðninginn og niðurgreiðsla nemur 50% af flugfari sem væri í okkar tilfelli milli heimilis og Reykjavíkur.

Þarna vil ég aðeins staldra við, höfum þetta í huga. Hin 50% fær flugfélagið greidd úr ADS-afsláttarsjóði að vissum skilyrðum uppfylltum. Þetta er ekkert svo galið. Fólk sækir um aðild að þessu kerfi og þarf að staðfesta heimilisfesti og það er gert á ákveðinn hátt. Við erum með kennitölur og lögheimili og við erum með þá gagnagrunna sem þarf til. Þetta virkar, eins og þetta er sett fram, þannig að farþegi bókar flugfar í bókunarvél flugfélags og skráir inn afsláttarkóða. Við það lækkar fargjaldið sem nemur afslættinum. Síðan sækir flugfélagið þau 50% til ríkisins. Talað er um að flugfélagið haldi sínum greiðsluformum eða stigskiptum farþegagjöldum, eða hvað á að nefna það, þ.e. netfargjöldum, fríðindagjöldum, hoppfargjöldum o.s.frv. Því er áfram hvati til að kaupa ódýrasta fargjaldið, það er tekið fram. Þeir sem ekki eiga rétt á afslætti eru farþegar með lögheimili utan skilgreindra svæða og farþegar sem fá endurgreiddar ferðir frá opinberum aðilum eða þriðja aðila og Tryggingastofnun er þar nefnd. Ég held að einnig megi nefna Sjúkratryggingar Íslands og svo auðvitað þá sem eru í viðskiptaerindum.

Í Skotlandi eru ekki takmörk á fjölda ferða þannig að það virðist vera takmarkalaust og hægt er að kaupa tvo leggi. Ég hélt fyrst að það væri bara annar leggurinn en nú er ég búin að læra að tveir leggir eru í boði. Þetta virðist allt snúast um þá sem eiga heima á skilgreindu svæði sem fellur undir áætlunina.

Nú er tími minn við það að klárast þannig að ég ætla að fá að fara aftur á mælendaskrá og ég ætla að halda áfram að fara yfir þetta.