150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ef menn leitast við að líta yfir sviðið þá má það vera hverjum manni ljóst sem hefur fylgst með þessum umræðum að við erum að fást við mál sem í raun og veru er meingallað. Nátengt því er mál sem er næst á dagskrá sem varðar stofnun opinbers hlutafélags sem á að hafa með höndum ýmsa þætti og þá sérstaklega borgarlínuna. Þetta er svo gallað að ég skil vel að fulltrúar meirihlutaflokkanna sem bera þetta mál fram, fulltrúar þeirra flokka sem skipa borgarstjórn Reykjavíkur sem leggur mikið kapp á þessa svokölluðu borgarlínu, skuli ekki láta sjá sig við þessa umræðu. Af hverju skyldi það vera? Í fyrsta lagi er þessi forgangsröðun ekki forsvaranleg, að setja 50 milljarða af opinberu fé í borgarlínu. Það er alveg greinilegt að menn treysta sér ekki til að verja það. Menn treysta sér ekki til að verja það í ljósi þess sem fram kemur í margtilvitnaðri grein Þórarins Hjaltasonar í Kjarnanum í mars í fyrra, um að það sé hægt að ná sömu markmiðum í almenningssamgöngum og stefnt er að með þessari svokölluðu borgarlínu með nokkrum milljörðum á meðan hér er ætlunin að setja í það 50 milljarða og kasta Keldnalandinu, verðmætasta byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu, á eftir þessu. Það er greinilegt að menn treysta sér ekki til að verja þetta. Það er alveg greinilegt að talsmenn þessa máls treysta sér ekki til að ræða kostnaðaráætlanir. Þeir treysta sér ekki til að ræða fráviksáætlanir frá þessum kostnaðaráætlunum. Þeir treysta sér ekki til að ræða þá þætti sem gætu valdið því að farið yrði fram úr kostnaði. Þeir treysta sér ekki að ræða arðsemisgreiningu á þessu verkefni eða þá staðreynd að þrátt fyrir viðleitni til að fjölga notendum strætós þá hefur hlutfallstala þeirra sem nota strætó ekkert breyst árum saman eða lítið sem ekki neitt, situr og spólar föst í 4%. Menn treysta sér ekki til að ræða að það eigi að setja 50 milljarða í verkefni sem á að þjóna 4–5% á meðan 95% fólksins kjósa aðrar leiðir og kjósa fjölskyldubílinn.

Herra forseti. Við Miðflokksmenn tölum fyrir skynsamlegum lausnum sem eru reistar á rökhyggju og á grundvelli þekkingar. Við höfum hér vitnað í hvern fagmanninn og fræðimanninn á fætur öðrum sem lýsa mjög alvarlegum annmörkum á þessari borgarlínu, til að mynda Jónas Elíasson sem segir að sú viðleitni sem er uppi varðandi almenningssamgöngur rísi ekki undir nafni, hún sé samfélagsþjónusta við þá sem ekki eru á eigin bíl. Hann kallar þetta sömuleiðis skutlþjónustu. Ef þetta ætti að rísa undir nafni sem almenningssamgöngur væru fleiri en 4% sem notuðu þær.

En kannski er það sem erfiðast er, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega klofinn í þessu máli eins og sést glögglega af ræðu hv. þingmanns og fyrrverandi ráðherra í sitjandi ríkisstjórn, Sigríðar Ásthildar Andersen. Hún nefnir ekki borgarlínu, a.m.k. í flest skipti, nema kalla hana svokallaða borgarlínu og kallar hana algerlega óútfært fyrirbæri, segir það í tvígang. Hún segir sömuleiðis að við Reykvíkingar þurfum að una við að ríkið hafi samið við Reykjavíkurborg um áframhaldandi framkvæmdastopp í Reykjavík með tilheyrandi skerðingu á lífsgæðum Reykvíkinga og tilheyrandi öryggisbrestum í umferðinni.

Hér er skjal. Það er ræða Sigríðar Á. Andersen. Hér er skjal sem er bloggfærsla Björns Bjarnasonar, hátignar í Sjálfstæðisflokknum, sem er greinilega sama sinnis. Ég vísa til Morgunblaðsins og leiðaraskrifa þar. (Forseti hringir.) Þessi mál saman heita Andersen-skjölin. (Forseti hringir.) Andersen-skjölin draga það fram, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn niður í rót í þessu máli.