150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég drap hér áðan á þann ágreining sem virðist vera uppi í Sjálfstæðisflokknum varðandi uppbyggingu mannvirkja og samgönguæða í Reykjavík. Ég minntist á að ég hefði rekist á umfjöllun um þetta mál sem ég hafði þá ekki fundið. En svo vildi til að góður starfsmaður Alþingis hjálpað mér að finna þessa umfjöllun og hún er í Morgunblaðinu frá því 14. maí sl. — sem er merkisdagur, eins og við öllum vitum, og fæðingardagur fyrrum forseta vors Ólafs Ragnars Grímssonar. En það er nú útúrdúr.

Í þessari umfjöllun í Morgunblaðinu er talað um að borgin þrengi að Sundabraut og að sögn varaborgarfulltrúa sé fyrirhuguð uppbygging húsnæðis fyrir heimilislausa utan deiliskipulags og skemmi fyrir lagningu Sundabrautar. Einnig segir, og það er stutt myndum, að í fyrsta lagi hafi skóflustunga verið tekin snemma í maí að því sem borgin kallar framtíðarbyggð, sem er nýtt hverfi í Gufunesi og kallað þorpið, en hún á að vera bíllaus kostur sem er hugsanlega ágætt og rétt þó að maður eigi erfitt með að ímynda sér að fólk sem býr í Gufunesi hafi ekki aðgang að einhverju slíku. En það sem er kannski verra er að vegstæði og lega Sundabrautar mun færast um einhverja metra og færist þá inn í hæð sem þarna er og gæti legið saman við veg sem notaður er til að komast á milli í Grafarvogi og heitir Strandvegur. Það mun alla vega kosta mun meira fé að fara þessa leið, að færa Sundabrautina með þessum hætti, fyrir utan það að hún kemur þá eftir færsluna, á leið yfir Eiðsvíkina yfir í Geldinganesið, niður í fjöru sem búið er að friða og menn vilja varðveita.

Með þessu háttalagi sínu er borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík að þrengja mjög að. Undir það tók hv. þm. Bergþór Ólason, sem er formaður hv. umhverfis- og samgöngunefndar, en borgarstjóri kom á fund nefndarinnar út af þeim framkvæmdum sem þarna eru.

Herra forseti. Þetta er því miður stærra mál en við blasir. Það er ekki að ófyrirsynju að við Miðflokksmenn skulum hafa viljað taka djúpa umræðu um samgönguáætlun þegar svona upplýsingar eru að berast okkur inn í vorið og virðast sífellt vera að magnast. Það er í sjálfu sér einfalt fyrir borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík að benda hingað og þangað og segja að hér eigi að vera stokkur, sem sagt Miklubraut og Sæbraut, vegna þess að það er annar sem borgar. Það er auðvelt að vera örlátur á annarra manna fé. Það er í sjálfu sér alvarlegt, eins og við höfum verið að benda á nokkrum sinnum í þessari umræðu, að það skuli vera þrengt svo að að verið sé að setja Sundabraut, þ.e. legu hennar, í uppnám rétt einu sinni og reyna að kyrkja hana í hinn endann vegna þess að menn hafa jú skemmt landtökuna Vogamegin eða Laugarnesmegin. Nú er sem sagt verið að þrengja að Sundabraut í hina áttina og svíkja 22 ára gamalt loforð við Kjalnesinga.

Það er satt að segja, herra forseti, frekar ömurlegt að standa frammi fyrir því að borgaryfirvöld hegði sér með þessum hætti. Það er spurning hvort þetta kallar ekki á sérstaka umræðu um það af hverju Sundabrautin er út úr áætluninni og hvers vegna verið sé, að því er virðist viljandi, að hefta uppbyggingu hennar. En þetta er lengra mál en hægt er að komast yfir á þessum mínútum og því bið ég forseta að skrá mig aftur í ræðu.