150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

biðlistar og stefna ríkisstjórnarinnar.

[11:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þá komum við að því sem lýtur að heilbrigðiskerfinu og sérstaklega að geðheilbrigðismálum sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni. Það hefur auðvitað verið ráðist í gríðarlegt átak til að byggja upp heilbrigðiskerfið í tíð núverandi ríkisstjórnar og núverandi heilbrigðisráðherra. Þar hefur verið sérstök áhersla á geðheilbrigðismál og eflingu geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst hjá heilsugæslunni. Það er hins vegar ekki svo að við séum með fullkomið kerfi. Ég get verið sammála hv. þingmanni um það. Auðvitað þarf að skoða sérstaklega þann þátt sem lýtur í raun að bráðaþjónustu við börn á sviði geðheilbrigðismála. En það hefur verið áherslumál hæstv. heilbrigðisráðherra að bæta sérstaklega þennan þátt. Þarna erum við að horfa á mjög langa sögu, vil ég leyfa mér að segja, áratugasögu, þar sem þessi málaflokkur í heild sinni, bæði hvað varðar börn og fullorðna, var lengi vel ekki forgangsmál í íslensku samfélagi, svo að við tökum það bara vítt, einfaldlega vegna eðlis geðheilbrigðismála. (Forseti hringir.) Ég tel að mjög margt gott hafi verið unnið á þessu kjörtímabili. En ég get verið sammála hv. þingmanni um að við eigum enn verkefni eftir í þessum málum.