150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

kjarasamningar lögreglumanna.

[11:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Já, það strandar á einu atriði, álagsgreiðslum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í bókun 7, sem er einmitt um álagsgreiðslur til lögreglumanna vegna þjálfunar, en samkvæmt kjarasamningi átti bókunin að vera afgreidd af hálfu stjórnvalda í síðasta lagi árið 2015. Það er spurning hvenær stjórnvöld hyggjast standa við það ákvæði.

Þá vil ég nefna álagsgreiðslur til framlínufólks í Covid-ástandi, en meiri hlutinn hér á þingi felldi tillögur okkar í Samfylkingunni um að útvíkka þær greiðslur til lögreglumanna. Vil ég heyra afstöðu hæstv. dómsmálaráðherra til þess og af hverju sú tillaga var felld og að þetta miðist eingöngu við álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks.

Að lokum vil ég spyrja hvort það komi til greina að koma til móts við mikla tekjuskerðingu lögreglumanna í þeim aðstæðum þegar þeir fá ekki vaktagreiðslur þegar þeir lenda í einangrun eða sóttkví vegna samskipta við sýkta aðila í störfum sínum. Nú verða á annan tug lögreglumanna fyrir mikilli tekjuskerðingu út af því að þeir mættu í vinnu og þurftu að vera í samskiptum við sýkta aðila. (Forseti hringir.) Kemur til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar að mæta þessari stétt, bæði er varðar álagsgreiðslur til framlínustétta og varðandi vaktagreiðslur fyrir lögreglumenn?