150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér enn samgöngumálin og kannski ekki vanþörf á því. Við sjáum að nýjar upplýsingar eða vangaveltur koma fram um málið sem vert er að huga að. Í Morgunblaðinu í morgun er grein eftir oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, Eyþór Arnalds, þar sem hann fer ágætlega yfir málið og alveg ljóst hvar sá ágæti maður stendur í þessu máli og það er að sjálfsögðu út frá hlið borgarinnar, þ.e. borgarbúa. Í greininni varar hann við því að yfir sig skuldsett Reykjavíkurborg ætli að fara í ævintýraverkefni eins og þetta, sem við ræðum einna helst hér þó að það sé langt frá því að þingmenn sem tekið hafa þátt í þessari umræðu hafi eingöngu rætt borgarlínu. Margt annað hefur líka verið rætt en hún fær eðlilega mikið pláss þar sem þetta er kannski stærsta einstaka fjárfestingin sem er rætt um í samgönguáætluninni.

Við getum líka velt því fyrir okkur hvernig stendur á því að hvorki heyrist hósti né stuna frá nokkrum Framsóknarmanni um málið. Er framlagning samgönguáætlunar — sem samgönguráðherra, formaður Framsóknarflokksins, ber að sjálfsögðu ábyrgð á, þó að hún hafi tekið töluverðum breytingum í meðferð nefndarinnar — uppáskrift þess ágæta flokks fyrir borgarlínu? Það er þó einn og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem var borgarfulltrúi sem maldar í móinn gagnvart þessu verkefni en Framsóknarflokkurinn virðist algjörlega búinn að kokgleypa það og styðja af heilum hug. Það er áhugavert því að það er ekkert svo langt síðan, ef ég man rétt, að sá flokkur var á móti því að fara í þetta mikla ævintýri. Vissulega getur mönnum snúist hugur og kannski ekkert að því. En þetta er töluverð sveifla.

Ég nefndi áðan ágæta ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen og þau orð sem þingmaðurinn notaði. Þingmaðurinn hefur, líkt og við mörg sem höfum talað hér af varúð um þetta borgarlínuverkefni, að sjálfsögðu áhyggjur af því að takmarkað fé er til að setja í framkvæmdir. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson kom ágætlega inn á það í ræðu sinni að við erum í mikilli niðursveiflu núna og ríkissjóður er mjög skuldsettur. Auðvitað segja margir að það sé rétt að fara í framkvæmdir þegar er slaki. En þetta er miklu meiri slaki, þetta er hrun í efnahagsmálum okkar eins og staðan er í dag og þurfum við að beita mikilli skynsemi til að komast út úr því ástandi aftur og þetta verkefni er dýrt.

Ég ætla að nefna tvö atriði sem eru mikilvæg í því öllu saman. Það er í fyrsta lagi það að við eigum að sjálfsögðu að horfa á það — og hlýtur að vera gert núna í tengslum við fjárhagsáætlanir og fjármálaáætlun sem er unnið að og fjárlög — að skera niður í rekstri ríkissjóðs. Það er raunverulega ekkert annað hægt þótt ekki væri nema að stöðva stækkunina sem er nánast sjálfvirk.

Í öðru lagi munum við þurfa að einblína og horfa á það að gæta vel að öllum áætlunum ríkissjóðs í framtíðinni. Það er ekki gert í tengslum við þessa samgönguáætlun og það sem snýr að borgarlínunni í því. Þar er ekki verið að mínu viti að gæta sérstaklega vel að framtíðarskuldbindingum ríkissjóðs þar sem áætlanir liggja ekki fyrir, skuldbindingar eru óljósar, ábyrgðin er mjög óljós þar sem er ekki alveg ljóst t.d. hvernig mögulegum ábyrgðum verður skipt þegar félaginu verður skipt upp sem hér er einnig minnst á í nefndaráliti meiri hlutans um samgönguáætlanirnar. Rosalega mörgum spurningum er ósvarað og líkt hv. þm. Sigríði Á. Andersen nefnir í ágætri ræðu, með leyfi forseta:

„Þá skiptir mjög miklu máli að það takmarkaða fé sem er til staðar komi hingað til Reykjavíkur, og ég legg áherslu á það, til að bæta úr því ófremdarástandi sem hér er í samgöngumálum, og verði veitt í skynsamlegan farveg og hagkvæman.“

Þar talar hún um mislægu gatnamótin sem hefur verið minnst á og við munum að sjálfsögðu koma inn á síðar.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.