150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í síðustu ræðu minni ræddi ég um að mikilvægar framkvæmdir í Reykjavíkurborg við stofnbrautir og mislæg gatnamót, framkvæmdir sem greiða mjög fyrir umferðarflæði, hafa setið á hakanum nú um langt skeið einfaldlega vegna þess að menn hafa haft einhverja ofurtrú á því að hægt væri að fjölga þeim sem taka strætó, og hreinlega stýra því þannig að sem flestir taki strætó. Raunin hefur þó orðið önnur. Það hefur bara ekki tekist. Þrátt fyrir margar og kostnaðarsamar tilraunir svo milljörðum króna skiptir til að reyna að fjölga þeim sem taka strætisvagna hefur það ekki gengið eftir og er það enn þannig að um 4% borgarbúa nýta strætisvagnana.

Að ætla sér síðan að fara í framkvæmdir upp á nýja gerð strætisvagnasamgangna, sem er borgarlína, með þetta veganesti og þær tilraunir sem gerðar voru til að fjölga í strætó og mistókust, er náttúrlega algerlega óforsvaranlegt. Í spilunum eru verulegar fjárhæðir sem skipta tugum milljarða. Ríkissjóður þarf að leggja út um 50 milljarða í þessu samkomulagi og er alveg ljóst að sú upphæð á eftir að hækka um a.m.k. einhverja milljarða.

Það er ekki forsvaranlegt að mati okkar, a.m.k. í Miðflokknum, að fara þessa leið. Við höfum vitnað í ýmsa sérfræðinga í skipulagsmálum og umferðarmálum sem tekið hafa undir þetta. Málflutningur þeirra er á þann veg að það sé bara óskhyggja í tillögu um borgarlínu að hægt sé að fjórfalda farþegafjölda strætós til ársins 2040. Flestir sem fengist hafa við þennan málaflokk sjá að það markmið mun aldrei nást. Það mun aldrei nást.

Í fyrsta lagi hefur á undanförnum árum einungis tekist að fjölga farþegum um nokkur prósent með heilmiklum tilkostnaði. Í öðru lagi var mikil kreppa í þjóðfélaginu eftir hrunið 2008 og þá minnkaði bílaumferðin. En með batnandi efnahag eykst fjöldi bifreiða aftur og umferð bíla eykst og það kallar einfaldlega á fleiri sviðsmyndir.

Ég rakti það áðan í ræðu minni að t.d. vegamálastjóri New York-borgar, Sam Schwartz, sem er sérfræðingur á þessu sviði, og þar er nú aldeilis mikil umferð, heldur því fram að ný almenningssamgöngukerfi sem ekki eru byggð frá grunni taki mið af umhverfinu sem þau eru í. Það er bara mjög erfitt að koma með ný samgöngukerfi inn í samfélag, umferðarmenningu og skipulag þar sem ekki er gert ráð fyrir því frá upphafi.

Við sjáum að það á að ganga hér á önnur umferðarmannvirki til að koma borgarlínunni fyrir. Það á að ganga á eigur fólks, leggja brautir nálægt íbúabyggð þar sem slíkt hefur ekki verið áður og hafa einstaklingar sent inn umsagnir og mótmælt þessu harðlega. Það verður því að segjast eins og er að þessi borgarlína mun í fyrsta lagi bara skapa óvistlegt umhverfi, það held ég að sé alveg ljóst, fyrir utan náttúrlega þann gríðarlega kostnað sem ég nefndi áðan.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.